Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Allir fyrrverandi forsetar fordæma árásina á þinghúsið

epa08922132 Sunrise at the White House as supporters of US President Donald J. Trump gather to protest Congress's upcoming certification of Joe Biden as the next president in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Various groups of Trump supporters are gathering on the Ellipse to hear President Trump speak during a rally as Congress prepares to meet and certify the results of the 2020 US Presidential election.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
„Atburðir dagsins eru skammarlegir, þeir eru hneisa sem skráð verður í sögubækur,“ segir Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, í yfirlýsingu sem hann birti á Twitter í kvöld. Allir fyrrverandi Bandaríkjaforseta sem enn lifa hafa tjáð sig um atburðarás kvöldsins.Þrír þeirra eru Demókratar og einn Repúblikani.

Obama, sem var forseti frá 2009 til 2017, lofar þá samflokksmenn Donalds Trump forseta sem hvetja til friðsamlegra valdaskipta í Washington en vísar ábyrgð á atburðum dagsins alfarið á hendur forsetanum.

Obama segir Trump síendurtekið hafa logið um niðurstöður forsetakosninganna, að uppspuni hans hafi sífellt orðið óraunverulegri og sáð fræjum sundurþykkju í landinu. „Ofsafengnar afleiðingar þess sáum við svo í dag,“ segir Obama í yfirlýsingu sinni.

Bill Clinton, sem tók við embætti 20. janúar 1993, segir kveikjuna að atlögunni að þinghúsinu vera fjögurra ára tímabil eitraðra stjórnmála og upplýsingaóreiðu. Það hafi verið Trump og fylgismenn hans sem kveiktu neistann sem leiddi til þessarar fordæmalausu árásar á þinghúsið, stjórnarskrána og þjóðina alla.

Eini Repúblikaninn í hópi fyrrverandi forseta, George W. Bush sem tók við af Clinton árið 2001, sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem segir að það sé aðeins í bananalýðveldum sem fólk mótmæli niðurstöðum kosningum með þeim hætti sem nú gerðist í Washington, svona lagað eigi sér ekki stað í lýðræðisríkjum.

Bush segir atburðina sýna vanvirðingu við bandarískar lýðræðishefðir, stofnanir ríkisins og lögreglu. Hann sagði að sig hryllti við glannalegri hegðun þeirra stjórnmálamanna sem hefðu hvatt til slíkrar framkomu.

Jimmy Carter sagði sér brugðið yfir atburðum dagsins sem hann kvað vera þjóðarharmleik. Hann sagðist vonast til að valdaskiptin að þessu sinni verði jafn friðsamleg og þau hafi verið undanfarnar tvær aldir.