Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

22 hafa greinst með breska afbrigðið hér á landi

07.01.2021 - 11:29
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Hér á landi hafa 22 greinst með breska afbrigði kórónuveirunnar, þar af þrír innanlands. Þeir tengjast allir þeim sem hafa greinst með afbrigðið á landamærunum. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

Sífellt fleiri vísbendingar koma fram um að breska afbrigðið, sem hefur nú greinst í mörgum Evrópuríkjum, sé meira smitandi en önnur, segir Þórólfur. Þó séu engin merki um að það valdi alvarlegri einkennum en önnur afbrigði. Þá er enn ekki ljóst hvort sýking annarra afbrigða veitir vörn gegn þessu afbrigði og heldur ekki hvort bóluefni verndar. „Vonandi styttist í niðurstöður sem svara þessum spurningum,“ segir Þórólfur. 

Vonar að faraldurinn sé ekki á uppleið

Þórólfur segir að innanlandssmitin hafi verið tiltölulega fá undanfarna daga en þó fleiri í gær en undanfarið. „Ég vona að það sé ekki vísbending um að faraldurinn sé á uppleið en ég held að næstu dagar verði að skera úr um það.“

Smitum á landamærum hefur fjölgað undanfarna daga og nýgengi á landamærum er orðið hærra en innanlands. „Það endurspeglar að sjálfsögðu faraldurinn erlendis en í mörgum nálægum löndum hefur hann verið í miklum vexti,“ segir Þórólfur. 

Hann hefur lagt til við heilbrigðisráðherra að fólk verði á ný skyldað til að fara tvisvar í skimun og sóttkví við komuna til landsins í stað þess að eiga einnig kost á fjórtán daga sóttkví.