Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Trump neitar ósigri, Demókratar vinna öldungadeildina

Mynd: EPA-EFE / EPA POOL
„Við gefumst aldrei upp og viðurkennum aldrei ósigur,“ sagði Donald Trump, Bandaríkjaforseti, á fjöldafundi í Washington og ítrekaði enn tilhæfulausar ásakanir um kosningasvik. Raunir forsetans jukust enn í dag eftir að ljóst virðist að Repúblikanar hafi misst meirihluta sinn í öldungadeild Bandaríkjaþings í kosningum í Georgíu-ríki. Demókratinn Raphael Warnock vann annað sætið með tveggja prósentustiga mun. Hinn frambjóðandi Demókrata, Jon Ossoff, lýsti yfir sigri síðdegis. 

Ossoff lýsir yfir sigri

Jon Ossoff var sjálfur ekki í vafa um úrslitin er hann þakkaði kjósendum í Georgíu, en miðlar vestanhafs hafa ekki viljað slá því föstu að hann beri sigur úr býtum þó að það sé talið afar líklegt.

Bandaríkjaþing á að staðfesta kjör Bidens

Nú er að hefjast fundur á Bandaríkjaþingi þar sem staðfesta á kjör Joe Bidens í forsetakosningunum í nóvember. Það er venjulega formsatriði en að þessu sinni hafa nokkrir þingmenn Repúblikana í báðum deildum boðað að þeir viðurkenni ekki úrslit í ríkjum þar sem litlu munaði.

Fjöldafundur stuðningsmanna Trumps

Á sama tíma stendur fjöldafundur stuðningsmanna Donalds Trumps, forseta, í Washington og hann ávarpaði fundinn á sjötta tímanum. Trump endurtók ásakanir um kosningasvindl, sagðist hafa unnið stórsigur og ekkert væri að marka talninguna í Georgíu, þar hefðu menn hlaupið um eins og hauslausar hænur. Hann sagðist aldrei ætla að gefast upp og skyldi stöðva kosningaþjófnaðinn. 

Krefst að Pence ógildi kosningarnar

Trump krafðist þess einnig að Mike Pence, varaforseti, sem er í forsæti á fundinum í þinginu, sæi til þess að úrslit kosninganna yrðu lýst ólögleg. Pence hefur ekkert vald til slíks og fréttaskýrendur segja að Repúblikanra geti í mesta lagi tafið staðfestingu Bidens um nokkrar klukkustundir.