Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Staðan góð en opnun skóla gæti hækkað smitstuðul

06.01.2021 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Miðað við fjölda smita undanfarna daga má ætla að fólk hafi farið varlega um jólin. Þetta segir Thor Aspelund prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. Smitstuðullinn hefur ekki hækkað.

Thor segir að það ætti að vera hægt að halda smitstuðli áfram undir einum en að hann hafi þó áhyggjur af opnun skóla, enda hafi fjölgun smita haldist í hendur við opnun skóla í haust.

„Mér líst vel á útlitið síðustu daga, það er ekki hægt að segja annað. Við höfðum áhyggjur af þessari hreyfingu í kringum jól og áramót, eins og aðrir. En það er eins og það hafi ekki náð að færa smitstuðulinn upp fyrir einn. Þannig að það er bara jákvætt og það hlýtur að vera að fólk hafi farið varlega,“ segir Thor.

Átján smit greindust á landamærunum í gær og að minnsta kosti tólf þeirra voru virk. „Þetta er ótrúlegt ástand í löndunum í kringum okkur og við erum sannarlega heppin að vera ekki á svipuðum stað,“ segir Thor.

Thor segir að við ættum að geta haldið smitstuðlinum undir einum en hefur áhyggjur af opnun skóla. „Gögnin sýna að þá kemur smá bakslag,“ segir hann. Smitstuðullinn sé undir einum og hafi verið það í þónokkuð marga daga. „Og það er í takti við líkön sem segja hvaða áhrif aðgerðirnar eiga að hafa. Það eru líkön frá Oxford háskóla. Þeir minna á að skólaopnun hækki mögulega þennan smitstuðul,“ segir hann.