Sjötíu ára og eldri í forgang við bólusetningu

06.01.2021 - 16:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi - RÚV
Lögð verður áhersla á að bólusetja fólk sem er sjötíu ára og eldra þegar næsta sending af bóluefni Pfizer kemur til landsins, 21. janúar, samkvæmt Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni. Hún mun innihalda skammta sem eiga að duga fyrir um 5.000 manns.

Von er á um 50.000 skömmtum sem eiga að duga fyrir 25.000 manns af bóluefni Pfizer fyrir lok mars.

Þórólfur segist hafa lagt til við ráðherra fyrir jól að áhersla yrði lögð á að bólusetja framlínusveitir í fyrstu atrennu og síðan yrðu elstu aldurshóparnir bólusettir. Þetta lagði hann til við ráðherra vegna þess að útlit er fyrir að Íslendingar fái minna af bóluefnum á næstunni en áður var haldið.

Hann segir að samkvæmt dánarhlutfalli þeirra sem deyja úr COVID-19 fari kúrvan mjög hratt upp hjá þeim sem eru eldri en 70 ára. „Og fer upp í 20% hjá elsta hópnum þannig að ég held það sé mikilsvert að reyna að vernda þann hóp,“ sagði Þórólfur í dag.

Um 4.870 manns á Íslandi hafa verið bólusettir við kórónuveirunni, þar af eru um 1.500 heilbrigðisstarfsmenn. Langstærsti hluti allra íbúa hjúkrunarheimila landsins fékk bólusetningaskammt frá Pfizer dagana 29. og 30. desember.