
Sjötíu ára og eldri í forgang við bólusetningu
Von er á um 50.000 skömmtum sem eiga að duga fyrir 25.000 manns af bóluefni Pfizer fyrir lok mars.
Þórólfur segist hafa lagt til við ráðherra fyrir jól að áhersla yrði lögð á að bólusetja framlínusveitir í fyrstu atrennu og síðan yrðu elstu aldurshóparnir bólusettir. Þetta lagði hann til við ráðherra vegna þess að útlit er fyrir að Íslendingar fái minna af bóluefnum á næstunni en áður var haldið.
Hann segir að samkvæmt dánarhlutfalli þeirra sem deyja úr COVID-19 fari kúrvan mjög hratt upp hjá þeim sem eru eldri en 70 ára. „Og fer upp í 20% hjá elsta hópnum þannig að ég held það sé mikilsvert að reyna að vernda þann hóp,“ sagði Þórólfur í dag.
Um 4.870 manns á Íslandi hafa verið bólusettir við kórónuveirunni, þar af eru um 1.500 heilbrigðisstarfsmenn. Langstærsti hluti allra íbúa hjúkrunarheimila landsins fékk bólusetningaskammt frá Pfizer dagana 29. og 30. desember.