Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Mikið álag á bráðamóttöku Landspítala og löng bið

06.01.2021 - 15:13
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Mikið álag er á Landspítalanum núna, meðal annars á bráðamóttökunni í Fossvogi. Þar er sjúklingum nú forgangsraðað eftir bráðleika og er sjúklingum vísað á heilsugæslustöðvar eða Læknavakt utan opnunartíma heilsugæslu ef það er mögulegt.

Fólk sem leitar á bráðamóttökuna vegna vægari slysa eða veikinda má gera ráð fyrir langri bið eftir þjónustu. Landspítalinn vekur athygli á þessu í tilkynnningu í dag. Spítalinn biðlar til almennings að taka tillit til þeirrar stöðu sem aukið álag vegna kórónuveirufaraldursins skapar á spítalanum og minnir á að hjúkrunarfræðingar eru á vakt allan sólarhringinn í símum 1770 og 1700 og sinna þar faglegri símaráðgjöf og vegvísun í heilbrigðiskerfinu fyrir allt landið. 

Í gær biðu hátt í 30 sjúklingar á bráðamóttöku eftir innlögn á aðrar deildir spítalans, en um 80 aldraðir einstaklingar biðu á ýmsum deildum spítalans eftir að komast á hjúkrunarheimili.

Bólusetja aldraða á undan öðrum

Búið er að breyta forgangsröðun við bólusetningu vegna COVID-19 eftir að í ljós kom að töluvert færri skammtar af bóluefni komu til landsins heldur en upphaflega stóð til. Ákveðið var að færa íbúa hjúkrunarheimila og aðra aldraða ofar í forgangsröðunina.

Um það bil 4870 manns á Íslandi verið bólusettir við veirunni, þar af eru um 1.500 heilbrigðisstarfsmenn.