Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Mega ekki flytja dauðvona sjúklinga á spítala

06.01.2021 - 15:24
FILE - In this Nov. 19, 2020, file photo, Dr. Rafik Abdou checks on a COVID-19 patient at Providence Holy Cross Medical Center in the Mission Hills section of Los Angeles. The raging coronavirus pandemic has prompted Los Angeles County to impose a lockdown to prevent the caseload from spiraling into a hospital crisis but the order stops short of a full business shutdown that could cripple the holiday sale season. (AP Photo/Jae C. Hong, File)
 Mynd: AP
Heilbrigðisyfirvöld í Los Angeles í Kaliforníu hafa gefið sjúkraflutningamönnum þau fyrirmæli að flytja ekki fólk á sjúkrahús ef lífslíkur þess eru taldar litlar sem engar. Mjög alvarlegur skortur er á súrefnistönkum í sjúkrabílum og á sjúkrahúsum, en staðan á faraldrinum í Los Angeles nú er mjög alvarleg. Öll gjörgæslu- og spítalarými borgarinnar eru yfirfull og hafa sjúkraflutningamenn þurft að keyra með sjúklinga í bæi og borgir í nágrenninu til að þeir fái þjónustu.

Meira en tvær og hálf milljón Kaliforníubúa hafa smitast af Covid-19 og þar af hafa yfir 27.000 látið lífið. Sé einungis litið til Los Angeles hafa greinst þar um 850.000 smit og 11.000 dauðsföll af völdum veirunnar verið tilkynnt. 

Stór hópur íbúa borgarinnar er skilgreindur í áhættuhópi eða með undirliggjandi sjúkdóma, eins og sykursýki, astma og offitu. 

Hræðilegt að mega ekki sinna sjúklingum

Sjúkraflutningakonan Tanya Crabbe segir í viðtali fréttastofu ABC að það sé hræðilegt að mega ekki sinna sjúklingum sem eru í alvarlegu ástandi, eins og í hjartastoppi, og fara með þá á sjúkrahús. Crabbe segir sömuleiðis að ef sjúklingur fær flutning á spítala þurfi hann að bíða í 5 til 8 klukkustundir á bílaplaninu fyrir utan sjúkrahúsið þar til hann fær pláss. 

365.000 manns hafa látið lífið í Bandaríkjunum af völdum sjúkdómsins. Nú liggja um 23.000 alvarlega veikir á gjörgæsludeildum um landið allt. 

Smit á sex sekúndna fresti

Í Kaliforníu hafa innlagnir á spítala tvöfaldast undanfarinn mánuð. Að sögn Eric Garcetti, borgarstjóra Los Angeles, smitast einn einstaklingur á sex sekúndna fresti. Útgöngubann var sett á víða í Kaliforniu í fyrstu bylgju faraldursins og það sama er uppi á teningnum nú. Öllum íbúum ríkisins hefur verið gert að halda sig heima síðan 6. desember, en þrátt fyrir það fjölgar smitum enn á ógnarhraða.