Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forstjóri Hrafnistu segir bólusetningu besta kostinn

María Fjóla Harðardóttir, Gísli Steinar Gíslason, Magnús Gunnarsson
 Mynd: Freyr Arnarson - Fréttir
Nær allir íbúar hjúkrunarheimila landsins voru bólusettir við COVID-19 í lok desember, meira en 3.200 manns. Á hverri viku deyja að meðaltali um 18 íbúar á hjúkrunarheimilum, um 2 til 3 á dag. Forstjóri Hrafnistu óttast hræðsluáróður í kring um bólusetningar eftir tilkynningar um möguleg tengsl fjögurra andláta við bólusetningar. Um 4.870 manns hafa verið bólusettir á Íslandi, þar af eru rúmlega 1.500 heilbrigðisstarfsmenn. 

Meira en 3.200 eldri borgarar bólusettir

Langstærsti hluti allra íbúa hjúkrunarheimila landsins fékk bólusetningaskammt frá Pfizer dagana 29. og 30. desember. Íbúar hjúkrunarheimila eru alla jafna á heldur háum aldri, en sumir þó yngri, eins og Þor­leif­ur Hauks­son, ríf­lega sex­tug­ur íbúi á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Selja­hlíð, sem var fyrsti Íslend­ing­ur­inn utan heil­brigðis­stétt­ar til að vera bólusettur. Á tveimur dögum voru yfir 3.200 eldri borgarar landsins bólusettir við Covid-19. Um þrjú þúsund almenn hjúkrunarrými eru á landinu öllu og því má slá föstu að langflestir íbúar heimilana hafi fengið bólusetningu fyrir rúmri viku síðan. 

18 andlát á viku að meðaltali

Að meðaltali deyja um 18 manns á hjúkrunarheimilum landsins í hverri viku, tveir til þrír á dag. Það þýðir að síðan bólusetningarnar fóru fram í lok desember hafa að öllum líkindum hátt í 20 manns, sem fengu bólusetningu, látið lífið. Þó hafa einungis fjögur andlát verið tilkynnt til Lyfjastofnunar sem möguleg alvarleg aukaverkun af bólusetningu við COVID-19. Öll frávik vegna lyfja ber að tilkynna til Lyfjastofnunar og það á ekki síst við um ný lyf, sem nýtt bóluefnið sannarlega er. 

Lyfjastofnun hefur borist fimm tilkynningar frá læknum um mögulegar alvarlegar aukaverkanir bóluefnanna og þar af fjögur möguleg andlát. Þá ber að taka fram að þau sem létust voru háaldrað fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Rúna Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir litlar líkur á því að bólusetningin hafi orsakað andlátin, en til að hafa allt á hreinu hafa Landlæknisembættið og Lyfjastofnun ákveðið að ráða tvo óháða sérfræðinga til að rannsaka andlátsorsakir

31 tilkynning hefur borist til Lyfjastofnunar vegna mögulegra aukaverkana af bóluefninu og búist er við enn fleirum næstu daga. Ný lög tóku gildi nú um áramót sem skylda lækna til að tilkynna mál sem þessi. 

Fólk í lífslokameðferð ekki bólusett

María Fjóla Harðardóttir, forstjóri hjúkrunarheimila Hrafnistu, undirstrikar mikilvægi þess að fara í bólusetningu, sé það í boði. Þó hafi verið ákveðið á öllum hjúkrunarheimilum landsins, að gefnum tillögum sóttvarnarlæknis, að fólk í lífslokameðferð fái ekki bóluefnið og heldur ekki fólk með þekkt bráðaofnæmi. 

„Það eru mjög strangar reglur varðandi eftirfylgni með aukaverkunum eftir bólusetningu almennt, en auðvitað sérstaklega núna. Samkvæmt leiðbeiningum sem fylgdu með lyfinu frá Pfizer segir að það eigi að horfa sérstaklega á ofnæmisviðbrögð næstu 15 mínúturnar, en við erum með hjúkrunarfræðing sem vaktar viðkomandi í hálftíma eftir að hann fær bólusetningu,” segir hún. „En það sem við erum því miður að sjá núna, eftir fregnir síðustu daga, að fólk virðist vera hrætt við bólusetningar. En það er brýnt að hugsa þetta lengra, það mun taka tíma fyrir landlæknisembættið að skoða þessi andlát, en það er þeirra fyrsta mat að það sé engin augljós tenging við bólusetninguna.“ 

„Það sem maður óttast er að fólk verði hrætt við bólusetningar.” 

„Það sem maður óttast er að fólk verði hrætt við bólusetningar. Að mínu mati er það mun hættulegra, því COVID er lífshættulegur sjúkdómur og það var ekki gefinn neinn afsláttur í þróun þessara bóluefna. Við viljum alltaf bóluefnið í staðinn fyrir smit.”

María Fjóla undirstrikar að hún ætli að láta bólusetja sig um leið og færi gefst. 

„Það er svo svakalega stór hópur sem var bólusettur hér fyrir viku síðan og það er svo fátt sem bendir til þess að það séu bein tengsl þarna á milli,” segir hún. „Og það er ekki gott að finna hræðsluáróðurinn sem er að fara í gang.” 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Meira en 3.200 eldriborgarar fengu bólusetningu fyrir viku síðan.

Fært ofar á forgangslistann þegar færri skammtar komu

Upphaflega stóð til að hafa íbúa á hjúkrunarheimilum, sem eru í miklum áhættuhópi sökum aldurs og annarra undirliggjandi sjúkdóma, í forgangshópi þrjú, á eftir heilbrigðisstarfsfólki í framlínubaráttunni við faraldurinn, sem eru í hópi eitt, og svo öðru heilbrigðisstarfsfólki, sem voru í hópi tvö. Þegar í ljós kom að töluvert færri skammtar af bóluefni komu til landsins heldur en upphaflega stóð til, var ákveðið að færa íbúa hjúkrunarheimila ofar í forgangsröðunina, þar sem hinn hópurinn taldi um 7.000 manns og það var ekki til nógu mikið af bóluefni fyrir þau. Nú hafa um það bil 4870 manns á Íslandi verið bólusettir við veirunni, þar af eru um 1.500 heilbrigðisstarfsmenn. 

Allir vilja fá bólusetningu

Þau sem til þekkja, og fréttastofa hefur rætt við í dag, segja að eðli málsins samkvæmt, margt flókið varðandi bólusetningarnar. Auðvitað vilja allir komast að og gagnrýna sumir hverjir forgangsröðunina, til að mynda að láta fólk á mjög háum aldri fá bólusetningu á undan heilbrigðisstarfsfólki og sjúkraflutningafólki. Hins vegar hefur þessi forgangsröðun tíðkast í löndunum í kring um okkur, en þar hafa eldri hópar einnig margir hverjir farið mjög illa út úr faraldrinum. 

Gamla fólkið ekki í klínísku rannsóknunum

Aðrir velta upp þeirri spurningu hvers vegna eldri hóparnir hafi ekki verið teknir með í klínísku rannsóknirnar á bóluefnunum, til þess að geta séð fyrir mögulega afleiðingar aukaverkana. Á móti kemur þá að mjög gamalt fólk þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af langvarandi aukaverkunum lyfjanna, þar sem það á flest ekki langt eftir ólifað. Til að mynda lifir fólk að meðaltali í 1,8 ár eftir að það er lagt inn á hjúkrunarheimili hérlendis. 

Yfirmenn lyfjamála hérlendis hafa verið í samskiptum við kollega sína í nágrannalöndunum, til dæmis Noregi, Danmörku og Svíþjóð, sem segja sömu sögu. Þar hafa borist tilkynningar um andlát hjá eldra fólki eftir bólusetningu, en það hefur ekki verið tengt sem afleiðing. En stóri munurinn á Íslandi og öðrum löndum nú er sá að flest Evrópulönd eru í miðjum faraldri svo það er ekki hægt að fylgjast með stöku andlátum, sérstaklega ekki hjá öldruðu fólki.