Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fórnaði afleitum fótboltaferli fyrir tónlistina

Mynd: Menningin / RÚV

Fórnaði afleitum fótboltaferli fyrir tónlistina

06.01.2021 - 09:57

Höfundar

Áhrifa tónlistarmannsins Magnúsar Jóhanns gætir vítt og breytt í íslensku tónlistarlífi, ýmist í flutningi, tónsmíðum eða pródúksjón. 

Magnús Jóhann er 24 ára gamall og er píanóleikari og tónskáld. Hann hefur unnið með fjölmörgum hljómsveitum og tónlistarmönnum en þar má nefna Bríeti, Auður, Sturla Atlas,  Jóa Pé og Króla, Emmsjé Gauta, GDRN, Jón Jónsson, Loga Pedro, Flóna, Herra hnetusmjör og Club dub. 

Hann hóf tónlistarnám sitt á fyrstu stigum grunnskóla. „Tónlistarnámið mitt hófst í forskóla Tónskóla Sigursveins á blokkflautu.  Svo neyddu foreldrar mínir mig í píanótíma hjá Snorra Sigfúsi Birgissyni en vilyrði mitt fyrir því að fara í þennan fyrsta píanótíma var að ég fengi Lord of the Rings kall í Nexus í verðlaun,“ segir hann. Fljótt kviknaði þó einskær áhugi á píanónáminu og leiðin lá síðar í FÍH sem síðar varð MÍT. 

Vissi hvert hann vildi stefna

Meðal kennara Magnúsar var Eyþór Gunnarsson píanóleikari. „Magnús Jóhann var góður nemandi. Það er einkunnin sem ég myndi gefa honum, þó hann hafi ekkert endilega alltaf gert það sem ég setti honum fyrir. Hann var náttúrulega snemma kominn með fastar skoðanir á hlutunum og vissi hvert hann vildi stefna. Svo hefur hann náttúrulega líka þetta eyra fyrir sándi, hann er vel græjaður af hljómborðum og hefur einstakt lag á að finna smekklega og svolítið skrítna hluti sem passa við,“ segir Eyþór. 

Annað áhugamál tók yfir áhugasvið Magnúsar um stund og tefldi tónlistarferlinum í hættu. „Reyndar hætti ég í píanónámi hjá Snorra á viðkvæmum unglingsaldri og var aðeins í boltanum í marki. Braut nokkur bein og var aldrei neitt sérlega góður. Fór á N1 mótið með E-liðinu og svona,“ segir hann og hlær.

Hneigðist snemma til rapps

Hann hélt fljótt áfram þar sem frá var horfið í hljóðfæranáminu og tók einnig þátt í söngleikjum Verslunarskólans á menntaskólaárunum. Um svipað leyti tók hann þátt í Músíktilraunum og hreppti þriðja sæti. Í kjölfarið gaf hann út plötu sem síðar varð tenging Magnúsar við rapptónlist, en hann er stundum nefndur rappundirleikari Íslands. „Ég svona flæktist dálítið inn í þá senu alla eftir að ég gaf út mína fyrstu sólóplötu. Arnar Ingi, vinur minn úr Verslunarskólanum hljóðsmalaði píanóstef af plötunni og bjó til frekar vinsælt rapplag sem heitir Út í geim með Birni, “ segir Magnús Jóhann. 

Samstarfsmaður, vinur

Tónlistarmaðurinn Auður hefur unnið fjölmörg verkefni með Magnúsi, nú síðast lagið Fljúgðu burt dúfa sem kom út í lok síðasta árs. „Magnús hefur reynst mér mjög mikilvægur samstarfsaðili, ekki bara vegna þess að hann er rosalega flinkur hljóðfæraleikari og tónlistarmaður heldur líka bara góður vinur. Ég held að hans hlutverk sé alltaf að styðja við eitthvað og það er svo ótrúlega mikilvægt. Maður fattar það þegar maður umgengst svona fólk að það er að lyfta manni. Ég er þakklátur fyrir það að vera með honum,“ segir hann.

Elektró og djass

Nýlega gaf Magnús Jóhann út plötuna Without Listening sem inniheldur 10 lög. „Fyrsta skrefið að plötunni var ákvörðun um að ljósmynd eftir bróður minn ætti að prýða forsíðu plötunnar. Það ákvað ég löngu áður en ég byrjaði að semja fyrir plötuna. Músíkin á plötunni sjálfri er dálítið tvískipt. Annars vegar dálítið elektrónískari hlið sem er eiginlega bara ég og svo hin hliðin sem er ögn spunakenndari og djassaðri. Hún er unnin með Magnúsi Tryggvasyni Eliassen trommusnillingi og Tuma Árnasyni saxófónleikara. Svo tók Bergur Þórisson plötuna upp að miklu leyti, mixaði og masteraði.“

 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Hann er líka bara góður vinur“