Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fimm ára fangelsi fyrir að nauðga fjórum konum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson nuddari var í dag dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að nauðga fjórum konum á nuddstofu sinni. Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, sem sótti málið fyrir hönd ákæruvaldsins, segir niðurstöðu dómsins í samræmi við kröfur ákæruvaldsins. 

Málinu hefur þegar verið áfrýjað. Steinbergur Finnbogason, verjandi Jóhannesar, segir að niðurstaðan komi á óvart. Hann gerir sér vonir um að það fáist önnur niðurstaða í Landsrétti. 

Fréttablaðið fjallaði um það í síðustu viku að þriðjungi sakfellinga í nauðgunarmálum væri snúið við í Landsrétti. 

Í greinargerð frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2019 segir að maðurinn sé sakaður um kynferðisbrot, framin í skjóli starfs hans sem nuddari eða meðhöndlari á tíu ára tímabili, frá árinu 2007 til 2017.

Teknar voru skýrslur af nokkrum konum sem allar saka manninn um kynferðisbrot.  Hann var meðal annars sakaður um að hafa nuddað kynfæri konu af miklum ákafa, farið inn í leggöng hennar og nuddað í kringum endaþarm. Loks hafi hann endað á því að nudda brjóst hennar. Konan leitaði til mannsins vegna verkja í efra baki, herðum og hálsi. 

Önnur kona sem leitaði til mannsins í tvígang vegna verkja í mjóbaki og rófubeini segir manninn hafa sett hendurnar inn í leggöngin á henni og þrýst. Hann hafi staðið fyrir aftan höfuð hennar með fingurna í leggöngunum og hún fundið fyrir hörðum kynfærum hans við andlit sitt. Þá hafi hún sagt stopp og farið.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV