Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Daði undirbýr Eurovision: „Ég ætla að reyna að vinna“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

Daði undirbýr Eurovision: „Ég ætla að reyna að vinna“

06.01.2021 - 22:27

Höfundar

Daði Freyr Pétursson stefnir að því að sigra í Eurovision í maí. Hann er búinn að fá um 250 upptökur frá almenningi, sem hann ætlar að nota í laginu. Hann er nú uppi í sveit þar sem hann leggur lokahönd á verkið.

Daði og Gagnamagnið báru sigur úr býtum í Söngvakeppninni í febrúar í fyrra, með laginu Think about things. Lagið hefði því átt að vera framlag Íslands í Eurovision, en eins og frægt er orðið var þeirri keppni aflýst vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Í október var svo tekin ákvörðun um að Daði færi fyrir Íslands hönd í keppnina í Rotterdam nú í maí, en með nýtt lag í farteskinu.

Rökrétt framhald

Það er ekki margt sem minnir á Eurovision í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en þar er Daði Freyr búinn að koma sér upp aðstöðu þar sem hann er að vinna að nýja laginu.

„Það er mjög kósí sko. Það er næs að vera með svona glugga beint fyrir framan mig og þegar ég er orðinn þreyttur á að horfa á skjáinn, þá þarf ég rétt að horfa upp og þá er ég með frekar næs útsýni,“ segir Daði Freyr.

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Hér má sjá lengri útgáfu af viðtalinu við Daða Frey.

Daði Freyr er búinn að semja lagið, en á eftir að fullklára það og taka það upp. Stefnt er að því að frumflytja það í mars.

„Ég myndi segja að þetta sé rökrétt framhald af Think about things, þetta er hresst og það verður einhver dans í þessu og eitthvað svona. Þetta er hresst popplag.“

Lofar engu

Daði Freyr óskaði eftir því á mánudaginn að fólk sendi sér upptöku þar sem það syngur ákveðinn part úr laginu. Allar þær upptökur ætlar hann svo að setja saman í einn risastóran kór, og nota í nýja laginu.

„Það eru ekki liðnir tveir sólarhringar og ég er kominn með 250 tölvupósta, þetta eru örugglega 170 manns,“ segir hann.

Lagið verður sungið á ensku, en Daði vill á þessum tímapunkti ekki gefa upp nafn þess.

Ætlarðu að vinna Eurovision?

„Ég ætla að reyna að vinna. Ég ætla ekki að lofa neinu en við förum inn í þetta eins og þetta sé keppni,“ segir Daði Freyr.

Tengdar fréttir

Tónlist

Daða Frey vantar raddir í nýja Eurovision-lagið

Popptónlist

Daði Freyr á toppi Rásar 2 árið 2020

Tónlist

Daði Freyr vildi alls ekki syngja Jaja Ding Dong

Popptónlist

Daði Freyr gerir það gott erlendis og fleira gott