Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Bóluefnaskammtur frá Moderna líklegur í næstu viku

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Vonast er til að fyrsti bóluefnaskammtur frá Moderna berist í næstu viku. Lyfjastofnun samþykkti í dag markaðsleyfi fyrir bóluefnið. Þar með hafa tvö bóluefni við kórónuveirunni fengið leyfi hér á landi. 

Bóluefnið frá Pfizer þarf að geyma í áttatíu stiga frosti en efnið frá Moderna er meðfærilegra.

„Þetta er svolítið einfaldara í notkun. Það þarf að flytjast í mínus tuttugu og getur verið lengur í kælingu og við stofuhita,“ segir Rúna Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar.

Líkt og með Pfizer bóluefnið þarf að bólusetja fólk tvisvar en fjórar vikur þurfa að líða á milli í stað þriggja.

En hvenær kemur fyrsti skammturinn frá Moderna?

„Við erum jafnvel að vonast til að það komi í næstu viku. En við erum ekki búin að fá neina staðfestingu en þeir eru samt sem áður komnir með afhendingaplan þannig að við vitum að við fáum tíu þúsund skammta frá þeim fyrir lok mars,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Fleiri bóluefnaframleiðendur óska síðan leyfis.

„AstraZeneca er líka í áfangamati hjá evrópsku lyfjastofnuninni og það er verið að fara yfir þau gögn núna og næstu daga,“ segir Rúna.

Finnst þér líklegt að það verði samþykkt í janúar?

„Ég get kannski ekki nákvæmlega sagt um það núna en mér finnst það líklegra en ólíklegra,“ segir Rúna.

Öldrunarlæknar skoða nú hvað skýrir fjögur andlát eftir bólusetningu og hvort undirliggjandi sjúkdómar eigi þátt í þeim. Það tefur ekki bólusetningu.

„Þetta er að koma upp líka í löndunum í kringum okkur,“ segir Rúna. Hún veit þó ekki til að annars staðar sé hafin sérstök rannsókn á andlátum aldraðra eftir bólusetningu enda eigi önnur ríki fullt í fangi með kórónuveirufaraldurinn sem er í vexti í flestum öðrum Evrópulöndum.

Sóttvarnalæknir breytti í dag forgangsröðun í bólusetningu þar sem minna kemur til landsins af bóluefni en búist var við. Sjötíu ára og eldri verða bólusettir næst, sjúkraflutningamenn sem flytja COVID-sjúklinga og einhverjir heilbrigðisstarfsmenn. 

„Það er eitthvað eftir af þeim. Við erum að fara yfir listann aftur en það er ljóst að margar heilbrigðisstofnanir vilja endurskilgreina sína lista og vilja fá fleiri inn í bólusetninguna sem myndi þýða það að við þurfum að taka eldri einstaklinga út af listanum,“ segir Þórólfur.

Þá hafa fyrirtæki sem telja sig þjóðfélagslega mikilvæg einnig þrýst á sóttvarnalækni.

„Og veit að það á áfram eftir að vera mikill urgur en það verður bara að vera svo,“ segir Þórólfur.

Gert er ráð fyrir næsta skammti frá Pfizer eftir um hálfan mánuð.

„Það er svona í kringum þrjú þúsund skammtar. Það sem er í hendi núna er að við fáum bóluefni fyrir 30.000 manns til loka mars,“ segir Þórólfur.

Þrjátíu og fjögur þúsund manns eru sjötíu ára og eldri. Pfizer hefur ekki svarað beiðni um bólusetja alla íslensku þjóðina í tilraunaskyni. Þórólfur býst við svari á næstu dögum.