Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Varð óöruggur þegar hann fann fyrir niðurstreymi

05.01.2021 - 11:10
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurlína Hilmarsdóttir - Umhverfisstofnun
Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að flugnemi, sem nauðlenti kennsluflugvél frá flugakademíu Keilis í Djúpadal við Látrabjarg í júní 2019, hafi orðið óöruggur þegar hann varð var við niðurstreymi. Nefndin telur að við þær aðstæður sem mynduðust hafi hreyfill vélarinnar ekki haft afl til að hækka flugið nægilega mikið og forða því að fljúga í jörðina. Vélin skall í jörðina og skemmdist töluvert en flugnemann sakaði ekki.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgöngumála um slysið.  Flugneminn fór í svokallað einliðaflug frá Keflavíkurflugvelli og ætlaði að fljúga um Vesturland.  Hluti af flugæfingunni var að æfa ákvörðunartöku einn um borð. 

Yfir Breiðafirði sagðist flugneminn hafa fundið fyrir ókyrrð en ákvað að fljúga áfram til Bíldudals þar sem vindur var að hans sögn einnig óstöðugur og breytilegur. Frá Bíldudal var förinni heitið að Látrabjargi þar sem hann ætlaði að njóta útsýnis frá öðru sjónarhorni og ná myndum af bjarginu.

Í skýrslunni segir að þegar flugneminn hafi verið að nálgast Látrabjarg úr vestri hafi hann ákveðið að lækka flughæðina í 1.500 til 2.000 feta hæð til að skoða klettana. Hann hafi þá orðið var við sterkt niðurstreymi og ekki náð að halda hæð.  Við það hafi hann orðið óöruggur og  og ákveðið að fljúga sem næst landi og freista þess að komast yfir land frekar en að halda út frá klettunum.  

Nefndin segir að hann hafi beint flugi sínu inn skarð í stað þess að vera yfir sjó og „þegar hann var kominn yfir land náði hann ekki að hækka flugið nægilega mikið með þeim afleiðingum að flugvélin skall í jörðina.“