
Trump skorar á kjósendur að bjarga Bandaríkjunum
Í áttatíu og einnar mínútu langri ræðu sem forsetinn hélt fyrir stuðningsmenn flokksins í borginni Dalton sagði Trump að róttækir Demókratarnir ætluðu sér að næla í öldungadeildarsætin í Georgíu til að geta náð ótakmörkuðu valdi yfir öllum þáttum daglegs lífs.
Trump varð tíðrætt um hve ótrauður hann hyggðist halda áfram að berjast fyrir áframhaldandi setu sinni í Hvíta húsinu. „Þeir taka ekki af okkur Hvíta húsið, við berjumst fyrir því af krafti,“ sagði Trump.
Hann biðlaði til Mike Pence, varaforseta síns, í ræðunni og sagðist vona að hann kæmi til bjargar. Forsetinn sagðist þess raunar fullviss að Pence leysti málið.
Pence hefur lýst stuðningi við áform ellefu öldungadeildarþingmanna um að staðfesta ekki forsetakjör Joe Bidens á þingfundi á miðvikudag. Jafnframt hafa stuðningsmenn Trumps reynt að fá staðfest vald hans til að ógilda niðurstöður forsetakosninganna.