Daði opnaði nýverið sýningu í Listasafni Reykjanesbæjar sem nefnist Gjöf Daða. Sýningin samanstendur af 400 grafíkverkum sem listamaðurinn færði safninu að gjöf. „Þetta er gott yfirlit yfir það sem ég hef verið að gera í grafíkmiðlun gegnum ævina,“ segir Daði. „Ég held að það sem hafi upphaflega laðað mig að grafík sé að ég hef aldrei verið mjög hrifinn af að gera eitthvað einfalt og það hljómaði rosalega flókið að gera svona grafík. Ég hef alltaf sótt í flóknari og flóknari grafík. Ég byrjaði í dúkskurði sem er frekar einföld og svo fór ég að gera ætingar sem er aðeins flóknara og svo endaði ég í því sem kallað er litógrafía eða steinprent sem eru mörg flækjustig í. Það var eiginlega mest gaman.“
Öllu ægir saman
Daði segir að í gegnum verkin liggi þráður tilfinninga og óreiðu. „Það eru örugglega þessar tilfinningar sem eru eilíf spretta. Það er endalaust sem það koma tilfinningar í vitundina hjá manni og ég er að reyna að grípa svolítið utan um það og búa til einhver leikrit úr því sem ég set í myndirnar. Ég held að það sé kannski ákveðin óreiða sem lýsir dálítið vel þessum samtíma þar sem öllu ægir saman.“