Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sala á áfengi í Vínbúðum jókst um 18% milli ára

05.01.2021 - 04:35
Mynd með færslu
Mest jókst salan á rauðvini, eða um 49 prósent. Mynd: Ragnar V - RÚV
Sala á áfengum drykkjum í Vínbúðunum jókst um 18 prósent á liðnu ári miðað við 2019. Talsverð aukning varð í sölu á bjór og léttvíni.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag og að alls hafi verið seldar 27 milljónir lítra samanborið við 23 milljónir 2019. Haft er eftir Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra Vínbúðanna, að kórónuveirufaraldurinn skýri þessa miklu aukningu að verulegu leyti.

Færri hafi farið um Fríhöfnina en vanalega auk þess sem barir og veitingastaðir hafi sætt takmörkunum og lokunum stóran hluta ársins. Aðrir þættir geti einnig efalaust haft áhrif. Mest sala hafi verið þann 30. desember og á Þorláksmessu. Miðvikudagur fyrir páska fylgir skammt á eftir.