Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óráðlegt að kljúfa sig út úr bóluefnasamningum

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra hefur trú á því að búið verði að bólusetja Íslendinga fyrri hluta ársins. Bráðaleyfi fyrir bóluefnum hafi ekki komið inn á borð ríkisstjórnarinnar en það hafi verið mat Lyfjastofnunar og sóttvarnalæknis að ekki sé ráðlegt að kljúfa sig út úr samningum.

Rætt var við Svandísi í Morgunútvarpinu á Rás 2.
Komið hafa fram áhyggjur af því að ekki náist að bólusetja alla Íslendinga fyrr en seinni part ársins. Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir svaraði því á upplýsingafundi Almannavarna í gær og sagði að mögulega fengju Íslendingar bóluefni fyrr en talið hafi verið hingað til.

Svandís segir að ekki sé hægt að semja um nákvæmar  dagsetningar á afhendingu bóluefna sem ennþá eru í framleiðslu. „Það sem við erum með í höndunum eru samningar og samskipti við þessi fyrirtæki og við Evrópusambandið í gegnum Svíþjóð og við Noreg, sem leyfir okkur að halda fram með vissu að við verðum búin að bólusetja þorra íslendinga fyrri hluta ársins eða fyrir sumarið.“ 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra nefndi á dögunum að það kæmi til greina að veita bráðaleyfi fyrir notkun nýrra bóluefna hér á landi. Svandís segir að umræða um það hafi ekki komið inn á borð ríkisstjórnar. 

„Það væri að mati Lyfjastofnunar og að mati sóttvarnarlæknis mjög óráðlegt að kljúfa sig út úr með þessu móti því þá stæðum við svolítið ein hvað þetta varðar og fyrir utan það að það er í sjálfu sé ekkert gagn í bráðaleyfi fyrr en framleiðslan er í hendi, þ.e.a.s ef við stæðum uppi með bráðaleyfi fyrir vöru sem ekki er búið að framleiða þá myndi það ekki færa okkur neitt nær.“