Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nokkrir plastpokar í Kringlunni þvert á nýtt bann

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson
Plastpokabann umhverfisráðherra tók gildi um áramótin. Þrátt fyrir bannið mátti finna plastpoka í Kringlunni í dag. 

Þrengt að einnota pokum

Hér á árum áður úði og grúði af plastpokum í verslunum, nú eru pappapokarnir að taka yfir. Um áramótin tók gildi bann við því að selja eða gefa burðarpoka úr plasti og frá því í september í hitteðfyrra hefur verslunum verið skylt að taka gjald fyrir alla burðarpoka hvort sem þeir eru úr plasti, pappír, lífplasti, maís eða taui. Markmiðið er að draga úr plastmengun og von stjórnvalda að fólk færi sig yfir í fjölnota pokana. 

Stefnt að plastleysi frá 2015

Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir að vegferð stjórnar Kringlunnar í átt að plastpokaleysi hafi hafist árið 2015. „Frá og með áramótunum 2019 og 2020 var þetta sett inn í samskiptareglur Kringlunnar að öllum verslunum í Kringlunni bæri að nota umhverfisvænar umbúðir,“ segir hann. Kringlan ætti því að vera orðin alveg plastpokalaus í dag. 

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson
Sigurjón Örn

„Þetta er eiginlega bara drasl“

Sólveig Arnarsdóttir og Egill Jósefsson voru í Kringlunni í dag. Þau sögðust ekki sakna plastpokana. „Þetta er eiginlega bara drasl, af hverju þarf maður þá?“ spurði Egill. „Bara betra að vera með margnota poka,“ sagði Sólveig. 

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson
Sólveig Arnarsdóttir og Egill Jósefsson voru í Kringlunni í dag.

Mæðginin Lúkas Jónsson og Brynhildur Guðmundsdóttir voru á sama máli. Þau myndu ekki sakna pokanna. „Ég er meira að segja með fjölnota fyrir það sem ég er að kaupa núna í dag og er búin að gera það undanfarið ár,“ sagði Brynhildur. Lúkas sagðist reyndar myndu sakna þess að eiga plastpoka fyrir ruslið.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson
Lúkas og Brynhildur

 

Þarf ekki poka í ruslið í Reykjavík

Eftir því sem meira er flokkað fer minna í blandaðan úrgang, en eitthvað ratar nú þangað samt og margir velta því fyrir sér hvaða poka eigi að nota í ruslið. Umhverfisstofnun mælir með því að nota ýmsa poka sem falla til á heimilinu, til dæmis bara snakkpoka eða poka undan brauði, það má nota lífplastspokana,  það er líka hægt að kaupa sérstaklega poka undir ruslið og í sumum sveitarfélögum, til dæmis Reykjavíkurborg má setja ruslið beint í tunnuna. Það þarf ekki poka en það gæti þurft að þrífa tunnurnar oftar. 

Enn seldir plastpokar í Kringlunni

Kringlan er ekki orðin alveg plastlaus, sumar verslanir eru enn að losa sig við plastpokalager, þvert á lög, annars staðar hefur plastpokunum verið skipt út fyrir poka úr hundrað prósent endurunnu plasti - en samkvæmt svari Umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn Fréttastofu þá má það ekki heldur, pokar sem seldir eru á afgreiðslukössum mega ekki innihalda neitt plast, hvorki nýtt né endurunnið. Ekki er gert ráð fyrir sérstöku eftirliti með pokabanninu en Umhverfisstofnun annast eftirlit með framfylgd laganna og leiðbeinir verslunum.