
Mannleg mistök urðu til þess að sement gaus úr tanknum
Óhappið varð klukkan fimm í morgun þegar sementi var dælt úr skipi sem liggur í höfninni í eitt af fjórum geymslusílóum Sementsverksmiðjunnar sem flytur inn og selur sement.
Sementstankurinn yfirfylltist sem varð til þess að upp úr honum gaus sementsryki sem lagðist yfir hús og bíla í nágrenninu. Rykið lagðist yfir nokkrar götur á Akranesi, tugi húsa og bíla. Sementsverksmiðjan hóf þrif á húsum í morgun með aðstoð slökkviliðs Akraness og fyrirtæki á Akranesi voru fengin til þess að þrífa bílana. Talið er að allt frá tvö hundruð kílóum upp í tvö tonn hafi spúst upp úr sílóinu, en erfitt er að meta það.
Gunnar Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar, segir sílóið hafa yfirfyllt fyrir mannleg mistök.
„Það er mannskapur um borð í skipinu sem fylgist með því hvernig dælingin fer fram og svo erum við með sólarhringsvakt í birgðastöðinni. Þessir menn eiga að tryggja það að sílóið yfirfyllist ekki, en það gerist samt. Þannig að þetta eru einhver mannleg mistök, einhver samskipti á milli þessara manna sem fara úrskeiðis.“
Þegar sement blotnar hækkar pH-gildi þess. Þá getur það étið sig í rúður og lakk og valdið skemmdum.
„Aðalatriðið, þegar maður missir sement út í andrúmsloftið, er það þrífa það sem allra, allra fyrst og með miklu vatni. Það höfum við gert í gegnum tíðina og þetta hefur allt saman gengið ágætlega fyrir sig,“ segir Gunnar sem segist ekki eiga von á að teljandi tjón hafi orðið.
Samkvæmt lögreglu hafa engar tilkynningar borist og verður ekki hægt að meta hvort og þá hversu mikið tjón hefur orðið fyrr en hreinsunarstörfum lýkur.