Mynd: EPA-EFE - NTB

Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.
Yfirvöld í Noregi hafa gefið upp alla von um að finna fólk á lífi eftir jarðfallið í bænum Ask í Gjerdrum 30. desember, sagði Ida Melbo Øystese lögreglustjóri á blaðamannafundi í dag. Tíu manns var saknað eftir hamfararnir. Sjö hafa fundist látin. Leitað hefur verið, í kappi við tímann, að þeim þremur sem saknað var. Síðast í gær lýstu yfirvöld því yfir að enn væri von um að fólk gæti fundist á lífi.
„Síðustu viku höfum við gert allt sem í okkar valdi stendur til að bjarga mannslífum,“ sagði Øystese á blaðamannafundinum. Leitað hafi verið á öllum stöðum þar sem fólk gæti mögulega verið, að því er fram kemur í frétt norska ríkisútvarpsins, NRK.
Lögreglustjórinn sagði vitað að þau sem hafi fundist hafi látist nokkuð fljótt eftir hamfarirnar. Þó að yfirvöld hafi gefið upp vonina um að finna fólk á lífi haldi leitin áfram. Bráðaaðgerðum sé lokið en lögregla ætli að gera allt sem hún geti til að hjálpa íbúum í Gjerdrum að koma lífinu í eðlilegt horf á ný.