Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa gefið upp von um að finna fólk á lífi

05.01.2021 - 15:17
Erlent · Ask · Evrópa · Gjerdrum · Hamfarir · Jarðfall · Náttúruhamfarir · Noregur
epa08917369 Rescue crews search for missing people at the area of the landslide in Ask, Norway, 03 January 2021. Several homes have been taken by the landslide in Ask that occurred on 30 December. Several people are still missing, and five have been confirmed dead. More than 1,000 people in the area have been evacuated.  EPA-EFE/Jil Yngland NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB
Yfirvöld í Noregi hafa gefið upp alla von um að finna fólk á lífi eftir jarðfallið í bænum Ask í Gjerdrum 30. desember, sagði Ida Melbo Øystese lögreglustjóri á blaðamannafundi í dag. Tíu manns var saknað eftir hamfararnir. Sjö hafa fundist látin. Leitað hefur verið, í kappi við tímann, að þeim þremur sem saknað var. Síðast í gær lýstu yfirvöld því yfir að enn væri von um að fólk gæti fundist á lífi.

„Síðustu viku höfum við gert allt sem í okkar valdi stendur til að bjarga mannslífum,“ sagði Øystese á blaðamannafundinum. Leitað hafi verið á öllum stöðum þar sem fólk gæti mögulega verið, að því er fram kemur í frétt norska ríkisútvarpsins, NRK. 

Lögreglustjórinn sagði vitað að þau sem hafi fundist hafi látist nokkuð fljótt eftir hamfarirnar. Þó að yfirvöld hafi gefið upp vonina um að finna fólk á lífi haldi leitin áfram. Bráðaaðgerðum sé lokið en lögregla ætli að gera allt sem hún geti til að hjálpa íbúum í Gjerdrum að koma lífinu í eðlilegt horf á ný.