Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Finnst eins og ég hafi ekki mætt í mörg ár“

05.01.2021 - 17:32
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / Samsett mynd
Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi fengu að mæta aftur í skólann í vikunni í fyrsta sinn eftir áramót. Þau hafa flest sinnt náminu að heiman síðan skólaveturinn hófst í haust. Þau voru flest fegin því að fá að mæta í skólann, en stóð ekki öllum á sama um smithættuna.

„Það er mjög skrítið eftir að hafa verið alltaf heima. Mér finnst eins og ég hafi ekki mætt í mörg ár,“ sagði Hrafnhildur Ása Sigurðardóttir sem var að fara aftur í tíma eftir að hafa þurft að fara út í frímínútum.

Staðnám hefst í fjölmörgum framhaldsskólum í vikunni eftir að reglur um skólahald voru rýmkaðar. Margir nemendur á framhaldsskólastigi hafa verið í fjarnámi síðan í byrjun október.

Í Menntaskólanum í Kópavogi hefur stundatöflu hefur verið breytt til að lágmarka blöndun nemenda og þeim er skylt að bera grímur. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur geti verið áfram í fjarnámi.

Þá er nemendum gert að fara úr byggingunni í frímínútum og í hádegishléi. Það lagðist misjafnlega í þá nemendur sem fréttastofa ræddi við í dag. „Það er allt í lagi því ég er með bíl. En ef einhver er ekki með bíl og þarf að bíða úti í kuldanum, það er kannski verra,“ segir Hrafnhildur Ása.

Nöfn þeirra sem rætt er við í myndskeiðinu hér að ofan eru:
Sigríður Alma Mábilardóttir og Árný Sara Viðarsdóttir
Hörður Óli Vignisson
Harfnhildur Ása Sigurðardóttir
Alexander og Birkir Snær
Inga, Natalía og Viktoría