Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fimm tilkynningar um mögulegar alvarlegar aukaverkanir

05.01.2021 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fimm tilkynningar hafa nú borist Lyfjastofnun um mögulegar alvarlegar aukaverkanir í kjölfar bólusetningar við COVID-19. Fjórir hafa látist, allt gamalt fólk með undirliggjandi sjúkdóma en Rúna Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir litlar líkur á orsakasambandi milli bólusetningar og andlátanna.

„Nú er farið að skoða sem sagt hvort það sé eitthvað orsakasamhengi á milli bólusetningarinnar og andlátsins en það eru hverfandi líkur á því. Það verður farið að skoða það og við gerum það í samvinnu við sóttvarnalækni og landlækni,“ segir Rúna.

Ekki liggur fyrir hversu langan tíma tekur að rannsaka þessar mögulegu aukaverkanir, en 31 tilkynning hefur borist, þar af um 26 sem ekki eru alvarlegar. Búist er við fleiri tilkynningum til Lyfjastofnunar á næstu dögum en Rúna bendir á að ný lög hafi tekið gildi um áramótin sem skylda lækna til að tilkynna mál sem þessi. 

„Það eru svona flestar sem tengjast stungustað, sem sagt eymsli við stungustað. Höfuðverkur, svimi, þreyta, ógleði. Þetta eru þessi algengustu. Svo er þyngsli fyrir brjósti og slappleiki. Þetta er eitthvað sem var búist við, og búist við í töluverðu magni, og kemur við aðrar bólusetningar líka,“ segir hún.