Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Arnaldur fellur af toppi sölulistans

Mynd með færslu
 Mynd: - - Forlagið/RÚV

Arnaldur fellur af toppi sölulistans

05.01.2021 - 15:56

Höfundar

Ólafur Jóhann Ólafsson á mest seldu bók ársins 2020, skáldsöguna Snertingu. Skákar hann með því sölukónginum Arnaldi Indriðasyni af toppsæti sölulista.

Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson var mest selda bókin í verslunum Pennans-Eymundssonar á árinu 2020. Hún er líka í efsta sæti á topplista Félags íslenskra bókaútgefenda, sem byggður er á sölutölum A4, Bóksölu stúdenta, Bónus, Hagkaups, Samkaupa, Heimkaups, Forlagsverslunarinnar og Kaupfélags Skagfirðinga.

Þetta sætir nokkrum tíðindum þar sem Arnaldur hefur vermt efsta sæti íslenskra sölulista mestan part síðustu 20 ára í það minnsta. Árið 2012 var hann síðast ekki með söluhæstu bókina. Það ár var ævisaga Gísla á Uppsölum eftir Ingibjörgu Reynisdóttur söluhæst.

Skáldsaga Ólafs Jóhanns hefur því hitt í mark hjá bæði gagnrýnendum og lesendum. Kolbrún Bergþórsdóttir gagnrýnandi Kiljunnar sagði hana vera eina af fáum hápunktum bókaútgáfu síðasta árs. „Ég finn það með bók Ólafs að hún hefur snert mjög við fólki. Það hrífst af henni og fólk sem hefur kannski ekkert hrifist af fyrri bókum hans sérstaklega.“

Sölulisti 2020 hjá Pennanum-Eymundsson:

 1. Ólafur Jóhann Ólafsson – Snerting (Veröld)
 2. Ragnar Jónasson – Vetrarmein (Veröld)
 3. Arnaldur Indriðason – Þagnarmúr (Forlagið - Vaka Helgafell)
 4. Kristín Marja Baldursdóttir – Gata mæðranna (Forlagið - JPV)
 5. Yrsa Sigurðardóttir – Bráðin (Veröld)
 6. Auður Ava Ólafsdóttir – Dýralíf (Benedikt)
 7. Steindór Steindórsson og fleiri – Ferðahandbókin
 8. Matthew Walker – Þess vegna sofum við (BF)
 9. Jón Kalman Stefánsson – Fjarvera þín er myrkur (Benedikt)
 10. Gunnar Þór Bjarnason – Spænska veikin (Forlagið - Mál og menning)

Topplisti Félags íslenskra bókaútgefenda:

 1. Ólafur Jóhann Ólafsson – Snerting (Veröld)
 2. Arnaldur Indriðason – Þagnarmúr (Forlagið - Vaka Helgafell)
 3. Yrsa Sigurðardóttir – Bráðin (Veröld)
 4. Ragnar Jónasson – Vetrarmein (Veröld)
 5. Bjarni Fritzson – Orri óstöðvandi: Bókin hennar Möggu Messi (Út fyrir kassann)
 6. Óttar Sveinsson – Útkall: Á ögurstundu (Útkall)
 7. Kristín Marja Baldursdóttir – Gata mæðranna (Forlagið - JPV)
 8. Birgitta Haukdal – Syngdu með Láru og Ljónsa (Forlagið - Vaka Helgafell)
 9. Gunnar Þór Bjarnason – Spænska veikin (Forlagið - Mál og menning)
 10. Ævar Þór Benediktsson – Þín eigin undirdjúp (Forlagið - Mál og menning)