Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aldrei fleiri hópuppsagnir tilkynntar á einu ári

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þrjár tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í desember, þar sem 137 starfsmönnum var sagt upp störfum. Á árinu 2020 barst Vinnumálastofnun alls 141 tilkynning um hópuppsagnir, þar sem 8.789 manns var sagt upp störfum. Þetta er mesti fjöldi hópuppsagna sem tilkynntur hefur verið til Vinnumálastofnunar á einu ári.

Stofunin greindi frá þessu í dag.

Uppsagnirnar í desember voru hjá Worldclass og ná til 94 starfsmanna, iðnaðarfyrirtæki þar sem 32 var sagt upp og flutningsfyrirtæki þar sem 11 starfsmönnum var sagt upp.

„Við vorum búin að segja upp 50 manns áður, það var í byrjun nóvember. Núna þurftum við að segja upp öllum sem voru í starfshlutfalli undir 70%, sem hlutabótaleið nær ekki yfir,“ sagði Björn Leifsson, eigandi og framkvæmdastjóri World Class í desember. Hann vonast til að geta ráðið sem flesta aftur.