Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Velta í skyrútflutningi nálægt þremur milljörðum króna

04.01.2021 - 09:56
Mynd: rúv / rúv
Velta Íseyjar útflutnings ehf., dótturfélags Mjólkursamsölunnar, í útflutningi á skyri var nálægt þremur milljörðum króna á liðnu ári og hagnaðurinn var um það bil 200 milljónir, segir Ari Edwald, framkvæmdarstjóri Íseyjar. Ari gerir ráð fyrir að útflutningur aukist á komandi árum. Fyrirtækið hóf útflutning á japanskan markað á árinu og opnaði einnig sölustaði fyrir Ísey í Finnlandi.

Ari segir að það sé mjög stórt verkefni að vinna úr breyttu viðskiptaumhverfi í Bretlandi eftir Brexit. Fyrirtækið bjó sig undir það með því að flytja framleiðsluna í Englandi til Wales. Gert er ráð fyrir að framleiðsla fyrir breskan markað hefjist að fullu í Swansea í febrúar. Þangað til verður skyrið flutt til Bretlands frá Danmörku. Viðskipti með mjólkurvörur hafi breyst þrátt fyrir að samningar hafi náðst um útgöngu Breta á aðfangadag. „Það eru allt önnur vottorð og pappírsvinna og það geta verið gjöld líka, þannig að við vonum það besta, að þetta verði hnökralaust,“ segir Ari. 

Þriðjungur af væntri sölu í Japan vegna COVID-19

„Þarna eru náttúrulega 130 milljónir manna og við gerðum okkur vonir það að salan gæti orðið um 3.000 tonn á síðasta ári,“ segir Ari um útrás Íseyjar á japanskan markað. „Hún varð nú ekki nema um þriðjungur af því þótt við næðum dreifingunni sem að var stefnt en mestallt árið hefur verið nokkurs konar lockdown-ástand. Þó það hafi ekki verið formlegt hafði það mikil áhrif á sölu.“

Ari segir að hreint skyr sé í áberandi vinsælt í  Danmörku en bendir á að í Noregi sé samkeppnisaðilinn ekki að selja neitt skyr. Vanilluskyrið sé vinsælast.