Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Varnarmálaráðherrar hvetja til friðsælla valdaskipta

epa07455552 The White House early in the morning after a rainy night in Washington, DC, USA, 22 March 2019. The Trump administration, along with lawmakers, are awaiting the release of special counsel Robert Mueller's report into President Trump's behavior.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Allir tíu núlifandi, fyrrverandi varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna vara við afskiptum hersins af valdaskiptunum 20. janúar. Friðsamleg valdaskipti séu aðalsmerki bandarísks lýðræðis.

Það eru þeir Ashton Carter, Leon Panetta, William Perry, Dick Cheney, William Cohen, Robert Gates, Chuck Hagel, James Mattis og Mark Esper sem eru höfundar greinarinnar.

Ráðherrarnir fyrrverandi, þar á meðal tveir sem sátu í ráðuneyti Donalds Trump, skrifuðu grein sem birtist í The Washington Post í dag, sunnudag. Þeir koma úr báðum flokkum og benda á að öllum tilraunum til að breyta niðurstöðum kosninganna hafi ýmist verið hafnað eða vísað frá dómstólum.

Ráðherrarnir hvetja Christopher Miller, sitjandi varnarmálaráðherra, til þess að taka þátt í friðsamlegum valdaskiptum. Hann og allir starfsmenn ráðuneytisins skuli forðast að aðhafast nokkuð það gæti grafið undan niðurstöðum kosninganna.

Tilraunir til afskipta hersins kveða þeir að geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir þá embættismenn sem knýja á um slíkt. Allt frá árinu 1861, þegar Abraham Lincoln tók við embætti, hafi valdaskipti verið friðsæl og friðsamleg og árið í ár ætti ekki að vera nein undantekning á því. Borgarastyrjöldin braust út í Bandaríkjunum í apríl 1861. 

„Það væri hættuspil, ólöglegt og bryti í bága við stjórnarskrána að blanda hernum í deilur um niðurstöður kosninga,“ skrifa varnarmálaráðherrarnir fyrrverandi. „Það er kominn tími til að staðfesta atkvæði kjörmannanna.“