Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tilfinningaþrungin stund þegar dómarinn las úrskurðinn

Talsmaður Wikileaks segir það hafa verið tilfinningaþrungna stund þegar breskur dómari las upp úrskurð sinn í morgun um að Julian Assange skuli ekki framseldur til Bandaríkjanna. Ástæðan er slæm andleg heilsa Assange, sem er talinn í sjálfsvígshættu. Bandarísk stjórnvöld ætla að áfrýja úrskurðinum.

Grimm örlög bíða Assange í Bandaríkjunum

Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, er gestur Kastljóssins í kvöld. Hann segir það hafa verið mjög tilfinningaþrungna stund þegar dómarinn las upp úrskurð sinn. Það tók dómarann um það bil 40 mínútur að lesa samantektina á niðurstöðunni, og allan tímann átti Kristinn von á því að hún væri að fikra sig í átt að þveröfugri niðurstöðu. Hún lýsti sig meðal annars fylgjandi fylgjandi rökstuðningi lögmanna Bandaríkjastjórnar. Þar til þetta kom til síðasta liðnum, en þá breyttist tónninn. 

„Það var mjög tilfinningarík stund þegar hún endaði mál sitt að lýsa því yfir að hún ætlaði ekki að heimila framsalið á þeim forsendum að heilsa hans sé slæm, hann er í sjálfsvígshættu og það muni magnast þegar og ef hann fer í einangrunarfangelsi og þarf að bíða réttarhalda þar í tvö eða þrjú ár. Síðan færi hann í „supermaxfangelsi” í Bandaríkjunum, þar sem má búast við löngum dómi, og er alla afplánunina í einangrun,” segir Kristinn.  

Ekki sigur fyrir blaðamennsku

Kristinn segir Assange hafa tekið tíðindunum vel. Úrskurðurinn sé þó alls ekki sigur fyrir blaðamennsku, heldur einungis fyrir heilsu Assange. 

Það sem dómarinn gerði var að skauta yfir, og í raun fallast á allar röksemdir Bandaríkjamanna um að það sé í allt í lagi að lögsækja menn á grundvelli blaðamennsku.

„Þess vegna heyrðum við strax í dag þau sjónarmið frá samtökum eins og Amnesty International og Blaðamönnum án landaæra, að þarna er enn mörgum spurningum ósvarað og það býsna stórum. En nú er fókusinn kominn á þær og það verður baráttumál að takast á við það.”