Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Telja enn mögulegt að fólk finnist á lífi í Ask

04.01.2021 - 09:08
epa08917369 Rescue crews search for missing people at the area of the landslide in Ask, Norway, 03 January 2021. Several homes have been taken by the landslide in Ask that occurred on 30 December. Several people are still missing, and five have been confirmed dead. More than 1,000 people in the area have been evacuated.  EPA-EFE/Jil Yngland NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB
Yfirvöld í Noregi telja að enn sé von um að fólk finnist á lífi eftir jarðfall í bænum Ask í Gjerdrum í Noregi. Sjö hafa fundist látin og þriggja er saknað. Norska ríkisútvarpið, NRK, greinir frá því að björgunarsveitir vinni hörðum höndum í kapp við tímann að því að finna fólkið. Leitað var til klukkan fimm í morgun að staðartíma. Ákveðið var að gera hlé á leitinni til að hreinsa jarðveginn og andrúmsloftið svo að leitarhundar ættu auðveldara með að greina lykt. Leit var að hefjast á ný.

Stjórnendur leitarinnar héldu fréttamannafund í morgun þar sem fram kom að enn væru vonir um að finna fólk á lífi. Ef fólk sé fast í rýmum þar sem súrefni er nægt geti það verið enn á lífi. Mikill kuldi geri leitina þó erfiðari.