Mynd: EPA-EFE - NTB

Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.
Telja enn mögulegt að fólk finnist á lífi í Ask
04.01.2021 - 09:08
Yfirvöld í Noregi telja að enn sé von um að fólk finnist á lífi eftir jarðfall í bænum Ask í Gjerdrum í Noregi. Sjö hafa fundist látin og þriggja er saknað. Norska ríkisútvarpið, NRK, greinir frá því að björgunarsveitir vinni hörðum höndum í kapp við tímann að því að finna fólkið. Leitað var til klukkan fimm í morgun að staðartíma. Ákveðið var að gera hlé á leitinni til að hreinsa jarðveginn og andrúmsloftið svo að leitarhundar ættu auðveldara með að greina lykt. Leit var að hefjast á ný.
Stjórnendur leitarinnar héldu fréttamannafund í morgun þar sem fram kom að enn væru vonir um að finna fólk á lífi. Ef fólk sé fast í rýmum þar sem súrefni er nægt geti það verið enn á lífi. Mikill kuldi geri leitina þó erfiðari.