Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stjörnukerfið fullkomlega marklaust

Mynd: Kiljan / RÚV

Stjörnukerfið fullkomlega marklaust

04.01.2021 - 13:07

Höfundar

Kolbrún Bergþórsdóttir og Gauti Kristmannsson bókagagnrýnendur segja að bókaárið 2020 hafi verið þokkalegt en hápunktar fáir. Kolbrún segir að stjörnuregnið í bókadómum blaðanna hafi ekki verið í neinu samræmi við sjálfa útgáfuna. „Ég hef verið að velta fyrir mér hvort það eigi ekki bara að leggja þetta stjörnukerfi af.“

Kolbrún Bergþórsdóttir, gagnrýnandi Kiljunnar, segir að ekki hafi margar bækur hrifið hana mjög á síðasta ári. Tvær skáldsögur hafi þó borið af. „Það var Dýralíf eftir Auði Övu og Snertingin eftir Ólaf Jóhann. Snertingin snerti mig mjög djúpt, eins og mjög marga lesendur. Þá kom eitthvað sem skiptir raunverulegu máli – það er að lesendur upplifi bókmenntaverk mjög sterkt og ég finn það með bók Ólafs að hún hefur snert mjög við fólki. Það hrífst af henni og fólk sem hefur kannski ekkert hrifist af fyrri bókum hans sérstaklega.“

Gauti Kristmannsson, gagnrýnandi Víðsjár, nefnir Fjarvera þín er myrkur eftir Jón Kalman Stefánsson sem eina af betri íslensku skáldsögum ársins auk Bróður eftir Halldór Armand Ásgeirsson og Dauða skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson.

Þau eru sammála um að margar geysigóðar þýðingar hafi komið út á árinu en þær hafi ekki fengið mikla athygli. Nefna þau helst þýðingar á verkum Honoré de Balzac, Peter Handke, Emily Dickinson og J.M. Coetzee. Sömuleiðis hafi innlend ljóðabókaútgáfa verið öflug og erfitt hreinlega að komast yfir allt. „Þeir sem segja að ljóðið sé dautt eru steingervingar,“ segir Gauti.

Alltof rausnarleg stjörnugjöf

Þau eru hugsi yfir bókmenntaumfjöllun á Íslandi og rausnarlegri stjörnugjöf. „Stjörnuregnið var þvílíkt í ár,“ segir Kolbrún. „Það var eins og að önnur eins bókajól hefðu aldrei átt sér stað. Það var þannig að ef höfundur fær þrjár stjörnur af fimm að þá er það falleinkunn. Nú hef ég ekki tölu á því en það voru kannski 10 bækur að fá fimm stjörnur – sem er algerlega út í hött. Ég hef verið að velta fyrir mér hvort það eigi ekki bara að leggja þetta stjörnukerfi af vegna þess að þetta er fullkomnlega marklaust. Þetta nýtist í auglýsingar fyrir forlögin sem þau nýta sér blygðunarlaust.“

„Ég er mjög feginn því að þurfa ekki að gefa stjörnur í Víðsjá,“ segir Gauti, „það veitir manni frelsi í umfjölluninni að vera ekki bundinn af þessu.“ Hann telur að miðluninni sé um að kenna. „Þau fá lítið pláss og það er oft verið að hnýta í bókmenntafræðinga en stundum væri kannski bókmenntafræðimenntum kostur þegar verið er að gagnrýna, ekki bara hvort þeim finnist bókin góð eða vond.“

Þau taka undir það að bókmenntaumræðan mætti vera fjörugri og skemmtilegri. „Þetta er orðinn svolítill samkvæmisleikur hjá okkur.“

Eiríkur Guðmundsson ræddi við Kolbrúnu Bergþórsdóttur og Gauta Kristmannsson um bókaárið 2020 í Víðsjá á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bókmenntarýnirinn sem áhrifavaldur

Bókmenntir

Bólga í stjörnukerfinu

Bókmenntir

Bókadómar miklu vægari nú en áður fyrr