Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óvenjulegt og órólegt ár á íslenskum verðbréfamarkaði

04.01.2021 - 13:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Metfjöldi viðskipta síðan 2008 var í kauphöllinni á liðnu ári. Úrvalsvísitalan hækkaði um 20,5% á árinu og stendur nú í 2.555 stigum. Þetta kemur fram í yfirliti yfir viðskipta ársins hjá Nasdaq Iceland. Skráð félög öfluðu sér alls 29 milljarða á markaði í haust auk þess að nýta hlutabréf sín sem gjaldmiðil við yfirtökur.

Fjöldi einstaklinga á markaðnum tvöfaldaðist

„Það er óhætt að segja að árið hefur verið mjög óvenjulegt á markaði en COVID-19 skapaði mikinn óróa hér sem annars staðar,“ segir Finnbogi Rafn Jónsson, forstöðumaður viðskipta og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland í tilkynningu frá kauphöllinni. 

Þriðja stærsta úboð í sögu markaðarins, hlutafjárútobð Icelandair, bar hæst á árinu og lét almenningur til sín taka í útboðinu þannig að tvöföldun varð á fjölda einstaklinga á markaðnum. Aukin þátttaka einstaklinga er rakin að töluverðu leyti til meiri áhuga almennings og sögulega lágra vaxta.

Mesta fjölda viðskipta á innlendum hlutabréfamarkaði í 12 ár var náð, 56.337 talsins eða um 226 á dag.

Velta hlutabréfa dróst saman um 1,6% en skuldabréfa jókst um 25%

Heildarviðskipti með hlutabréf á árinu námu 602 milljörðum eða 2.417 milljónum á dag og dróst heildarvelta saman um 1,6%. Heildarviðskipti með skuldabréf námu 1.768 milljörðum á árinu sem samsvarar 7,1 milljarða veltu á dag, samanborið við 5,7 milljarða veltu á dag árið 2019. Það er 25% meiri velta en í fyrra og hafa viðskipti með skuldabréf ekki verið meiri síðan 2015.

„Þar stendur upp úr góður gangur í útgáfu sjálfbærra skuldabréfa og að ríkið nýtti sér markaðinn vel til fjármögnunar,“ segir Finnbogi Rafn. Í lok árs voru tíu skuldabréf skráð á markað Kauphallarinnar fyrir sjálfbær skuldabréf og fjölgaði um sex á árinu. „Þá mun innkoma okkar í vísitölur MSCI auka veg markaðarins og möguleg skráning Íslandsbanka yrði sannarlega lyftistöng.“

Bréf Kviku, TM og Origo hækkuðu mest 

Á aðalmarkaði hækkaði verð bréfa Kviku banka mest á árinu eða um 63,5% en þar á eftir bréf TM sem hækkuðu um 53,6% og bréf Origo sem hækkuðu um 50,9%. Á Nasdaq First North markaðnum hækkaði verð bréfa Hampiðjunnar mest eða um 75%.

Icelandair lækkaði mest á árinu, -78,3%, því næst Klappir grænar lausnir, -6,5% og Reitir fasteignafélag, -2,9%.

Markaðsvirði skráðra hlutabréfa var í árslok 1.563 milljarðar samanborið við 1.251 milljarð í lok árs 2019 sem er 24% hækkun milli ára. Í lok árs voru 23 félög skráð, þar af 4 á Nasdaq First North.

Mynd með færslu
 Mynd: Nasdaq Iceland
Á aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeildina á árinu 2020, eða 21,8%. Næstur var Íslandsbanki með 18,2% og þar næstir voru Fossar Markaðir með 16,8%

Mest viðskipti á árinu voru með bréf Marel, 103,2 milljarðar, Arion banka, 79,4 milljarðar og Festi 43,7 milljarðar.

Mynd með færslu
 Mynd: Nasdaq Iceland
Á skuldabréfamarkaði var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina, 18,95%, á árinu 2020. Næstir komu Kvika banki með 18,9% og Arion banki með 16,1%.