Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kosningar í Georgíu á morgun munu móta forsetatíð Biden

epa08766896 US President Donald J. Trump (R) and Democratic presidential nominee Joe Biden (L) participate in the final presidential debate at Belmont University in Nashville, Tennessee, USA, 22 October 2020. This is the last debate between the US President Donald Trump and Democratic presidential nominee Joe Biden before the upcoming presidential election on 03 November.  EPA-EFE/JIM BOURG / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Reuters
Kosningar um tvö öldungadeildarþingsæti í Georgíuríki í Bandaríkjunum verða á morgun, í annað sinn á tveimur mánuðum. Það var svo mjótt á munum í kosningum þar í nóvember að það þurfti að kjósa aftur þar sem enginn frambjóðandi fékk helming eða meira af greiddum atkvæðum. Kosningarnar á morgun munu skera úr um hvort Biden njóti stuðnings meirihluta Demókrata í öldungadeildinni í forsetatíð sinni sem hefst síðar í þessum mánuði.

Fær Biden þingið? 

Niðurstaðan í fyrri atrennunni í Georgíu, sem var haldin meðfram forsetakosningunum, var sú að Repúblíkanar fengu 50 sæti af 100 og Demókratar 46. Þeir tveir óháðu þingmenn sem náðu kjöri kjósa yfirleitt með Demókrötum. Ef Demókratar fá tvo þingmenn kjörna verður hvor flokkur um sig því í raun með fimmtíu atkvæði í þinginu. Þá bætist við atkvæði varaforsetans, Kamölu Harris, sem þýðir að Demókratar verða með nauman meirihluta. Það myndi auðvelda verðandi forseta, Joe Biden, mjög að koma málum í gegnum þingið. Að öðrum kosti halda Repúblíkanar meirihluta sínum.

Erfið mál framundan sem þurfa samþykki þingsins

Kosningafyrirkomulagið í Georgíu sker sig úr að því leitinu til að ef enginn frambjóðandi nær 50 prósenta kosningu eða meira, keppast efstu tveir frambjóðendurnir á nýjan leik. Sá leikur verður haldinn á morgun, 5. janúar. Ef Demókratar tapa eru töluverðar líkur á því að Biden hafi ekki stuðning þingsins og að hans frumvörp nái ekki þar í gegn, eins og til dæmis varðandi loftslagsmálin, aðgerðir vegna faraldursins og fjárveitingar til lögreglunnar. 

Í framboði fyrir Demókrata eru Raphael Warnock og Jon Ossoff og fyrir Repúblikana eru það Kelly Loeffler og David Perdue. Fjölmiðlar vestanhafs segja afar mjótt á munum og ljóst er að kosningarnar verði afar spennandi. 

Slæmt símtal á enn verri tíma

Birting fjölmiðilsins Washington Post, á klukkustundalangri upptöku af símtali Donald Trump Bandaríkjaforseta Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíu og yfirmann kosningamála þar, í gærkvöld kemur sér afar illa fyrir Repúblikana. Upptakan er vægast sagt sláandi og kemur sér afar illa fyrir Repúblikanaflokkinn, sérstaklega í ljósi þess að kosningarnar fara fram á morgun. 

Í símtalinu heyrist Trump skora á Raffensperger, sem einnig er Repúblikani, að finna fleiri atkvæði fyrir sig í fylkinu til að veita sér vopn í baráttunni um að halda forsetaembættinu. Biden vann það ríki naumlega í forsetakosningunum með tæplega tólf þúsund atkvæða mun.

Fyrsta bláa Georgían síðan 1992 

„Ég vil bara finna 11.780 atkvæði, sem er einu meira en við höfum,” sagði Trump, meðal annars. Símtalið var á laugardaginn og var, eins og áður segir, birt á vef Washington Post í gær. Trump er þar í töluverðri geðshræringu og þrábiður flokksbróður sinn um að breyta úrslitum kosninganna í fylkinu, en Demókratar höfðu þar sigur úr býtum í fyrsta sinn síðan 1992.

Rafflesberger svarar og bendir forsetanum á að upplýsingarnar sem hann hafi séu rangar. 

Símtalið hefur hlotið gagnrýni frá báðum fylkingum í bandaríska þinginu.