Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gjaldeyrissala Seðlabankans skipti sköpum

04.01.2021 - 12:14
Mynd með færslu
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka Mynd: Íslandsbanki
Aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði á nýliðnu ári hafi komið í veg fyrir verulega veikingu krónunnar. Hann telur líklegt að gengi krónunnar verði í jafnvægi fram á vor.

 

Krónan veiktist um allt að tíu prósent gagnvart helstu gjaldmiðlum á nýliðnu ári. Hrun ferðaþjónustunnar hafði mikið að segja enda dró verulega úr gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.

Seðlabankinn brást við með því að hefja reglulega sölu á gjaldeyri í haust til að styrkja og viðhalda jafnvægi á gengi krónunnar. Í heild seldi bankinn 231 milljón evra í reglulegum viðskiptum frá miðjum september til loka desember, sem samsvarar 37 milljörðum króna.

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að gengið hafi lækkað mun minna en spár gerðu ráð fyrir.

„Miðað við hversu stóran skell efnahagslífið sér í lagi útflutningur fékk á síðasta ári þá hefur gengi krónunnar verið stöðugra heldur en flestir, þar á meðal ég, óttuðumst fyrr á síðasta ári. Auðvitað er meginskýringin á því hversu mikil tilþrif Seðlabankans hafa verið og hvað hann hefur lagst í stórtækar aðgerðir til þess að skapa meiri stöðugleika á krónunni, sérstaklega síðasta haust,“ segir Jón Bjarki.

Aðgerðir Seðlabankans hafi því skipt miklu máli.

„Já við hefðum séð mikla veikingu. Auðvitað varð töluverð veiking í ágúst og september og fram í október. En hún hefði verið af allt annarri stærðargráðu ef ekki hefði komið til þessi mikla gjaldeyrissala Seðlabankans,“ segir Jón Bjarki.

Hann á von á því að gengi krónunnar verði í jafnvægi fram á vor.

„Miðað við hvernig hefur þó gengið að halda sæmilegum stöðugleika í miklum utanaðkomandi sveiflum á síðasta ári þá virðast mér ágætar líkur á að það verði þokkalegur stöðugleiki fram á sumarið,“ segir Jón Bjarki. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV