
Flugeldar skila sveitunum mörg hundruð milljónum á ári
Fleiri keyptu meira af flugeldum
Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar, segir söluna í ár hafa gengið betur heldur en síðustu tvö ár og telur mögulegar þrjár ástæður vera fyrir því.
„Fólk var líklega ekki tilbúið að kveðja þetta ár með mínútu þögn,” segir hann. „Síðan voru engar brennur og auk þess voru sennilega fleiri Íslendingar hér um áramótin heldur en undanfarin ár.”
Þór segist vera fullmeðvitaður um að flugeldar menga og hefur orðið var við þá umræðu sem virðist aukast ár frá ári - um að Íslendingar ættu að hætta að kaupa flugelda. Af þeim stafar bæði hljóð- og loftmengun og svo geta þeir líka valdið slysum.
„Miðað við veðrið þá var mengunin ekki eins mikil og margir bjuggust við. Það eru aðrir þættir, sem ná ekki eyrum sums fólks, sem menga mjög mikið og það eru brennurnar,” segir hann. Ef flugeldar verði teknir úr sölu til almennings segir hann það endalok flugeldasölu Landsbjargar, sem sé enn fremur stærsta tekjulind björgunarsveitanna.
Minni peningar 2020 en jafn mörg útköll
„Þetta er 52. árið sem við notum þessa fjáröflunarleið, svo það er mikil hefð fyrir þessu hjá okkur,” segir hann. Björgunarsveitirnar, sem eru 93 talsins um land allt, fá samtals á bilinu 700 til 800 milljónir á ári fyrir söluna, en Landsbjörg rekur þetta á núlli. Einingarnar á landinu sjá um söluna.
Þór segir Landsbjörgu hafa orðið af miklum tekjuskerðingum á árinu, eins og flestir. Það þurfti að fresta Neyðarkallasölunni og spilakassarnir voru lokaðir, sem þýðir mörg hundruð milljóna króna skerðing fyrir 2020. Hins vegar var alveg nóg að gera hjá sveitunum, sem fóru í um 1.300 útköll og aðgerðir, sem er eins og í góðu meðalári.