Passa upp á hvert annað og tapa ekki gleðinni
En þó árið hafi einkennst af látlausri vinnutörn segir Víðir að þau hafi aldrei látið neinn bilbug á sér finna. „Það sem við eigum sameiginlegt í þessu er hvað við höfum gaman að því sem við erum að gera. Við höfum aldrei tapað gleðinni í þessu og við höfum alltaf passað upp á að láta okkur líða eins vel og hægt er.“
Að vissu leyti hafa þau líka passað upp á hvert annað. „Það var snemma í ferlinu sem Alma gaf okkur Þórólfi ráðleggingar um svefn og mataræði,“ segir hann. „Ég notaði það.“
Makar allra standa sem klettar við hlið þeirra
Það hefur þó vitaskuld verið erfitt á köflum að geta ekki sinnt sínu nánasta fólki eins og þau hefðu viljað, Víðir er sammála því, en hann hitti föður sinn til dæmis aðeins tvisvar á árinu. „En maður hefur hitt sitt nánasta fólk og maður væri ekkert án þeirra. Ef maður hefði ekki eiginkonuna og börnin að bakka sig upp held ég að maður hefði ekki meikað þetta.“
Þau eiga enda öll góða maka sem hafa staðið sem klettar við hlið þeirra. „Þau sýna starfinu mikinn skilning og eiga það sameiginlegt að hafa passað upp á okkur. Það hefur skipt gríðarlegu máli,“ segir Alma.
Afabarnið þarf nú að lúra jafnoft og Víðir
Víðir hefur sjálfur þurft að þola COVID-19 veikindin á eigin skinni en hann veiktist fyrir sex vikum. Hann kveðst ekki vera búinn að ná sér en getur ekki svarað því fyrir víst hvort hann glími við langtímaeinkenni. „Ég er enn mjög þreklaus þannig að ég get setið við og unnið í tvo tíma. Svo þarf ég bara að leggja mig,“ segir hann.
Hann á blessunarlega eitt skyldmenni með svipaða rútínu. „Ég á eitt afabarn sem er níu mánaða og við erum með mjög svipaðar svefnvenjur, við þurfum tvo lúra á dag til að vera góð.“
Andlegi þátturinn vegur þungt eftir veiknindin
Hann segir veikindin sem hann er að rísa upp úr vera ólík öllu sem hann hefur áður lifað. „Það er mjög sérstakt hvernig þetta virkar á líkamann og á tímabili á hugsunina. Ég á erfitt með að fókusera og hugsa skýrt og það er óþægileg tilfinning og vont þegar þetta kemur fyrir,“ segir hann. Alma kallaði þessi einkenni sem sumir glíma við heilaþoku og Víðir segir það mjög lýsandi orð. „Ég man ekki hlutina, man ekki hvað fólk sem ég þekki mjög vel heitir. Það dettur út.“ Reynslan segir hann að hafi haft mikil áhrif á sig í baráttunni og út lífið. „Ég áttaði mig mjög snemma á því að þetta væri alvarlegur sjúkdómur,“ segir hann.
Líður enn oft eins og hann sé með hita
„Ég er sannfærður um það núna að þetta er ekki líkt neinni flensu. Ef ég hefði fengið venjulega inflúensu og háan hita í marga daga væri maður sæmilegur eftir tvær vikur og eftir þrjár vikur góður. Núna eru liðnar sex vikur og ég fæ þessa tilfinningu mörgum sinnum á dag að ég fer og mæli mig því mér finnst ég vera kominn með bullandi hita og líður eins og ég sé með flensu.“ Og svo vegur andlegi þátturinn líka þungt. „Þetta tekur á og maður fer djúpt niður líka. Það eru margir þættir sem spila inn í það að heilsan er ekki eins og maður vill hafa hana.“
Það eru einmitt ekki bara þeir sem veikjast alvarlega og þurfa að komast undir læknishendur sem verið er að vernda með aðgerðunum, bendir Þórólfur á. „Það eru líka þeir sem eru heima og þurfa ekki að leggjast inn á sjúkrahús. Þeir geta fengið kvilla sem hafa langvarandi áhrif,“ segir hann. „Þess heldur skynjar maður betur mikilvægi þess að komast í gegnum þetta.“
Ánægð með Áramótaskaupið
Þau voru almennt séð ánægð með það hvernig þau birtust í Áramótaskaupinu en segja þó að pirringurinn sem þeim var gerður upp í þættinum yfir að fá alltaf sömu spurningarnar komi ekki heim og saman við þeirra reynslu af fundunum. „Það er reyndar hárrétt að við fáum oft sömu spurningarnar. Ég er oftur spurður að því hvernig við getum haldið það út en ég held að okkur hafi tekist að sýna ekki pirring,“ segir Þórólfur sem var kátur með Skaupið og ekki síst túlkunina á honum sjálfur sem var í höndum Sigurjónssonar leikara. „Siggi Sigurjóns var mjög góður sem sóttvarnalæknir og hann var eiginlega betri en ég sjálfur. Ég er að spá í að fá hann til að leysa mig af,“ segir hann. Með hlutverk Víðis fór Þorsteinn Bachmann og Jóhanna Vigdís Arnardóttir lék Ölmu.
Stundum erfitt að fá skítkast og ómálefnalega gagnrýni
Þau eru augljóslega vinsæl hjá þjóðinni og margir eru þakklátir og ánægðir með störf þeirra á árinu eins og sjá má á úrslitum kosninganna. Þau hafa þó líka sætt gagnrýni sem er mismálefnaleg. Víðir kveðst almennt fagna gagnrýni sem er vel rökstudd. „Ég hef alltaf horft á það þannig að gagnrýni sé jákvæð, hún hjálpar manni að opna hugann og sjá hlutina frá sjónarhorni annarra. Það er svo auðvelt að festast í rörasýni ef maður fær enga gagnrýni,“ segir hann. Það svíði þó stundum ef hún sé persónuleg. „Þegar gagnrýni er sett fram með skítkasti finnst mér alltaf pínu erfiðara að taka mark á henni.“
Fólk í rekstri fyrirtækja og hefur þurft að þola erfitt óvissuástand hefur gagnrýnt ákvarðanir Almannavarna og ríkisstjórnarinnar um lokanir. Víðir segir að slík gagnrýni sé oftast kærkomin. „Þeir eru bara mjög málefnalegir. Þeir eru bara að reyna að bjarga sínu fyrirtæki og starfsfólki og það svíður ekki,“ segir Víðir. Stundum komi þó fram gagnrýni á samfélagsmiðlum sem innihaldi skítkast og það geti verið erfitt að fá slíka yfir sig. „En hörð gagnrýni sett fram á málefnalegan hátt hjálpar manni bara að fókusa.“
Alma segir það vera þeim til happs að ekkert þeirra er sérlega hörundssárt. „Við erum ekkert að velta okkur upp úr svona hlutum,“ segir hún. „Auðvitað er gagnrýni gríðarlega mikilvæg, hún fær mann til að hugsa öðruvísi. Ef mér finnst gagnrýni ekki sanngjörn tek ég hana ekki til mín. Maður bara metur það.“
„Stöku sinnum hefur það snert mann“
Sóttvarnalæknir tekur í sama streng. „Gagnrýni er misjöfn og hún snertir mann misjafnlega. En það er mikilvægt að maður reyni ekki að taka henni persónulega og maður viti að það sé ekki verið að ráðast á persónu manns þó eitthvað sé gagnrýnt sem maður segir eða hefur ákvarðað að gera,“ segir hann en tekur undir með Víði um að persónuárásir og skítkast hafi stundum haft áhrif á hann. „Stöku sinnum hefur það snert mann, ég játa það, en það hefur ekki haldið fyrir manni vöku.“
Sigmar Guðmundsson ræddi við Þríeykið í Okkar á milli á RÚV. Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.