Mynd: EPA

Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.
Allir plastpokar eru nú bannaðir í verslunum
04.01.2021 - 21:21
Um áramótin tóku gildi reglur sem banna afhendingu plastburðarpoka í verslunum hvort sem er gegn endurgjaldi eða ekki. Bannið tekur jafnt til þunnu, glæru grænmetispokanna og innkaupaburðarpokanna, en nær ekki yfir plastpoka sem eru seldir í rúllum í hillum verslana. Til þess að koma í veg fyrir að einnota neysla færist yfir á aðrar tegundir poka eru einnota burðarpokar úr öðrum efniviði en plasti gjaldskyldir.
Þetta bann er í samræmi við Evróputilskipun sem lýtur að því að draga úr notkun á plastpokum og ein af fjölmörgum aðgerðum stjórnvalda sem eiga að stuðla að minni notkun á plasti, auka endurvinnslu á því og koma í veg fyrir plastmengun sjávar.
Afhending burðarpoka án endurgjalds hefur verið óheimil í verslunum síðan í byrjun september 2019 og með þessum nýju reglum er stigið enn lengra skref í átt að minni pokanotkun.