Segir ekki koma til greina að telja inn tíu kirkjugesti

03.01.2021 - 15:34
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Staðgengill biskups kaþólsku kirkjunnar segist telja í lagi að fimmtíu manns komi saman í messu, þrátt fyrir tíu manna samkomutakmörk, ef tveggja metra reglan er virt og fólk er með grímur. „Af því kirkjan okkar er svo stór,“ segir Patrick Breen í samtali við fréttastofu.

Fjöldi kirkjugesta í messu í Landakotskirkju á öðrum tímanum í dag var langt yfir þeim hámarksfjölda sem sóttvarnareglur kveða á um. Tíu manns mega vera í messum, en í kirkjunni voru þónokkuð fleiri en fimmtíu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mætti á staðinn og ræddi við sóknarprest að lokinni messu. Málið er nú til rannsóknar lögreglu. Lögregla hafði einnig afskipti af messu í Landakotskirkju á aðfangadagskvöld. Þá voru kirkjugestir á annað hundrað.

„Mér finnst sjálfum, að ef við erum að virða tveggja metra regluna og fólk er með grímur, þá sé allt í lagi að vera upp í fimmtíu,“ segir Patrick.

En finnst þér koma til greina að við næstu messur teljið þið inn tíu kirkjugesti og lokið svo? 

„Tíu, nei. Annars lokum við kirkjunni. Við bönnum fólki ekki að koma í kirkju. Við munum ekki hafa messur og telja tíu inn. Nei, það kemur ekki til greina. Seinna tölum við kannski við biskup og sjáum hvað við getum gert,“ segir hann.