Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Rafmagnslaust á vestanverðu landinu

03.01.2021 - 21:58
B
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Rafmagnslaust er á öllu vestanverðu landinu. Rafmagn er komið á að nýju í Húnaþingi vestra samkvæmt upplýsingum frá Rarik. Háspenna er á landskerfinu, en um leið og dregur úr álagi ætti rafmagn að komast á að nýju.

Rarik greinir frá að unnið sé að viðgerð sem gæti staðið fram á nótt en ekki sé hægt að ákvarða nákvæmlega hvenær rafmagn kemst á aftur. Rafmagnsleysinu fylgir mikil röskun á FM-útsendingum útvarps á svæðinu. 

Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets segir í samtali við fréttastofu að allt Snæfellsnes, Borgarfjörður og Hrútatunga sé án rafmagns. Truflun varð á Vatnshamralínu eitt sem olli truflun í dreifikerfi Rarik. Rétt fyrir tíu fór Hrútatungulína út sem veldur rafmagnsleysi á Snæfellsnesi.

Mannskapur sé kominn að línunum og leita að bilun en verið sé að keyra upp varaafl á þar sem það er hægt. Ekki er vitað hve langan tíma viðgerð kann að taka en Steinunn segir rafmagn þegar tekið að koma inn á nokkrum stöðum. 

Á vef Rarik segir eftirfarandi: „Rafmagnstruflun er í gangi í landskerfinu á á öllu vesturlandi og er verið að vinna í að byggja upp kerfið. Nánari upplýsingar veitir Svæðisvakt RARIK Vesturlandi í síma 528 9390 og kort af svæðinu má sjá á www.rarik.is/rof.“

Fréttin var seinast uppfærð kl. 23:17.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV