Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Óttast að þekking lífeindafræðinga hverfi úr landi

03.01.2021 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Um áramótin færðist skimun vegna leghálskrabbameins og brjóstakrabbameins frá Krabbameinsfélaginu til annars vegar heilsugæslunnar og hins vegar til Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Lífeindafræðingar sem hafa séð um greiningu sýna úr leghálsskimunum óttast að mikilvæg þekking þeirra glatist við að sýnagreiningin sé flutt úr landi.

Í byrjun desember var Svandís Svavarsdóttir spurð að því á Alþingi hvernig staðið yrði að greiningu sýna úr leghálsskimun eftir að heilsugæslan tekur við henni. 

Á meðan tækjabúnaður og húsnæði er ekki tilbúið fer skimun fyrir brjóstakrabbameini fram hjá Krabbameinsfélaginu enn um sinn en sýnataka vegna leghálsskimunar fer fram hjá heilsugæslunni og eru þau send til greiningar erlendiss. 

„Rannsóknir frumusýna auk HPV-sýna verða tímabundið gerðar erlendis á meðan unnið er að fyrirkomulagi til lengri tíma. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um það hvar frumursýnin verða rannsökuð eftir að tímabundinn samningur rennur út. Landlæknir lagði til að úrlestur á frumusýnum yrði á Landspítala en sjúkrahúsið er ekki í stakk búið til þess að taka strax við því verkefni enda hefur álagið á sjúkrahúsið verið mikið undanfarið vegna Covid eins og öllum er kunnugt. Þátttaka í skipulegri skimun fyrir krabbamein í leghálsi er meginforsenda þess að ná tilætluðum markmiðum um að lækka nýgengi og dánartíðni. Til að ná fram þessum markmiðum þarf m.a. að tryggja öryggi og gæði rannsókna.“ sagði Svandís Svavarsdóttir á Alþingi í byrjun desember í svari sínu við fyrirspurn sem Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins lagði fram.

Lífeindafræðingar uggandi

Alda Margrét Hauksdóttir formaður Félags lífeindafræðinga segir að lífeindafræðingar hafi ekki verið hafðir með í ráðum við að ákveða fyrirkomulag sýnagreiningar. Hún og fleiri lífeindafræðingar óttast mjög að þeir lífeindafræðingar sem hafa fram til þessa unnið að greiningu sýna hér á landi hverfi til annarra starfa því næg sé eftirspurnin annarsstaðar eftir þeirra kröftum. Það taki sex til tólf mánuði að þjálfa upp færni hjá starfsfólki til að gefa út niðurstöður. 

„Þær verða atvinnulausar í einhvern tíma, en ekki lengi. Það er skortur á lífeinafræðingum og ef þær fara ekki í þetta get ég ekki ímyndað mér annað en að þær fái í öllum þessum lífeindafrirtækjum sem eru á landinu, ég er sannfærð um að þær verða komnar í vinnu eftir ákveðinn tíma, og þá er ekki mannskapur til að færa þetta heim aftur,“ segir Alda. 

Rekjanleiki sýna sýndi gildi sitt

Með tilkomu nýs greiningatækis sem er í uppsetningu á Landspítala á að vera hægt að sinna greiningum sem þessum. Hún segir það hafa sýnt sig þegar skoða þurfti eldri sýni hjá konum sem komu í skoðun hjá Krabbameinsfélaginu í fyrra hversu mikilvægt það er að sýnataka sé rétt skrásett og utanumhald í lagi.

„Það hefur ekkert verið gefið uppi hvað á að gera, hver á að sjá um þann hluta ferlisins að taka á móti sýnunum, safna þeim saman, ganga frá þeim til sendingar og fylgja þeim eftir þegar þau eru komin erlendiss. Hvernig verður skráningu og svörun háttað og hvernig verður geymslu sýnanna háttað þar, því eitt af því sem er mikilvægast í gæðakerfum er rekjanleiki, að allt sé skráð og þú getir farið fram og til baka í ferlinu. Það er það sem gerðist í þessu atviki hjá Krabbameinsfélaginu vegna gæða skráninga var hægt að fara og finna öll sýnin aftur, fara yfir þau, bera saman af því að það er passað upp á alla vinnuferla og skráningar,“ segir Alda. 

Hún undrast það samráðsleysi sem stjórnvöld hafa haft við lífeindafræðinga í tengslum við tilfærsluna. Því hefur verið borið við að sýni verði svo fá að ekki sé unnt að viðhalda þekkingu við sýnagreiningu hér á landi. Hún óttast að með því að láta greiningu fara fram erlendiss glatist þekking hér á landi. Aðrar þjóðir hafi brenns sig á því. 

„Írar komust að þessarri niðurstöðu að það borgaði sig af því að það væri of dýrt að halda þessu úti, þá úthýstu þeir þessu þar. Það tekur ákveðinn tíma að byggja það upp að nýju, það er ekkert ómögulegt en er fólkið hér heima þá tilúið að gera það þegar einhver utanaðkomandi getur með einu pennastriki þurrkað út greinina þína þá er það ég sem hugsa, ókey viljum við þá einhverntíma fara út í það aftur?,“ segir Alda. 

Leghálssýnataka óþægileg fyrir konur í litlu samfélagi

Tilfærsla sýnatökunnar til heilsugæslunnar getur reynst konum í minni samfélögum erfiðari en þeim sem búa til að mynda á höfuðborgarsvæðinu. Minni samfélög bjóði upp á meiri kunningskap og nánd á milli fólks. 

„Það er enginn sem spyr konurnar hvort að þeimfinnst þægilegt að fara í það umhverfi, það er ekki það sama að vera búsettur úti á landi á minna svæði þar sem er miklu meiri nánd í heilsugæslunni en hérna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Alda.