
Maðurinn sem hefur ekki verið nafngreindur komst framhjá öflugri varðgæslu við gestahús hallarinnar. Liðsmenn varðliðs keisarans höfðu hendur í hári hans þar sem hann spókaði sig við vistarverur Yuriko prinsessu, afasystur Naruhitos.
Ekki er vitað til þess að maðurinn hafi átt samskipti við nokkurn úr keisarafjölskyldunni meðan á heimsókninni stóð. Fjölmiðlar í Japan segja þó engan hafa meiðst meðan á dvöl mannsins stóð í Akasaka höll.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem óboðnir gestir gera sig heimakomna í híbýlum Japanskeisara. Á síðasta ári synti maður yfir síki við höllina, kleif virkisvegg og komst inn á ytra garðsvæðið við höllina.
Fyrir tæpum 40 árum, árið 1982 komst Michael Fagan, rúmlega þrítugur maður, inn í Buckingham-höll og alla leið í dyngju drottningar. Þar settist hann á rúmbrík hennar og spjallaði við hana í nokkar mínútur þar til hann var yfirbugður.