Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eldur í grilli og flugeldahávaði í höfuðborginni

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að bregðast við á þriðja tug útkalla vegna hávaða og ónæðis af flugeldum í gærkvöldi og í nótt. Á áttunda tímanum í gærkvöldi kom upp eldur í grilli á svölum húss í miðbæ Reykjavíkur.

Slökkvilið réði niðurlögum eldsins sem skemmdi svalirnar en náði ekki inn í íbúðina. Í nótt handtók lögregla ofurölvi konu á sjúkrastofnun, sem var vistuð í fangaklefa eftir að hafa hunsað fyrirmæli um að halda til síns heima.

Í dagbók lögreglu kemur fram að nokkuð var um slys og óhöpp í gærkvöldi og nótt. Til að mynda féll maður úr stiga í þriggja metra hæð og missti meðvitund þegar hann skall með hnakkann í steypt gólf. Hann var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild.

Réttindalaus stúlka var stöðvuð við akstur í úthverfi í nótt, hún viðurkenndi að hafa tekið inn fíkniefni skömmu áður. Því var mál hennar unnið með forráðamanni og tilkynnt barnaverndaryfirvöldum.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV