Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vinnuvikan styttist hjá þúsundum í næstu viku

Mynd: RÚV / RÚV
Tugþúsundir launafólks í dagvinnu hjá hinu opinbera þurfa aðeins að vinna 36 klukkstundir í komandi viku í stað 40 stunda. Formenn BSRB og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fagna þessum kaflaskilum í baráttunni. Vaktavinnufólk þarf að bíða til 1. maí.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hjúkrunarfræðingar í vaktavinnu fá styttingu 1. maí.

Stytting vinnuvikunnar hefur lengi verið baráttumál stéttarfélaga. Á nýliðnu ári sömdu stéttarfélög um styttingu hjá hinu opinbera. Á almennum vinnumarkaði er heimild til þess að stytta í kjarasamningum en stytting hjá fjölmennasta stéttarfélaginu á almennum vinnumarkaði, VR, tók gildi fyrir einu ári. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Sonja Ýr Þorbergsdóttir.

Kaflaskil í sögu okkar

„Þetta tekur raunverulega til næstum því allra sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum og eru þá innan aðildarfélaga innan BSRB og BHM og svo er þetta líka Félag leikskólakennara og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB.

„Það eru um 22 þúsund innan aðildarfélagana á BSRB og þau starfa hjá ríki og sveitarfélögum en eru líka hjá sjálfseignarstofnunum eins og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu þar sem að þessar breytingar taka gildi.“ 

Auk 22 þúsund félaga í BSRB nær styttingin nær til 3300 hjúkrunarfræðinga, 2200 í Félagi leikskólakennara og að auki eru félagar í BHM.  

Heldurðu að fólk átti sig á þessum tímamótum núna?

„Það er auðvitað búið að vera mikið samtal í gangi á dagvinnustöðunum. Ég held að það sé svona meira að fólk sé að átta sig betur á því á vaktavinnustöðunum hvað sé framundan af því að núna er þetta samtal í gangi líka þar en tekur þó gildi síðar. En þetta eru kaflaskil í sögu okkar. Það er mikil breyting í vændum,“ segir Sonja Ýr. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Guðbjörg Pálsdóttir.

Baráttumál í mörg ár

„Núna 1. janúar að þá getur dagvinnufólkið stytt vinnuvikuna í 36 stundir, en vaktavinnufólkið, sem telur nú til 2/3 af hópi hjúkrunarfræðinga, að það mun ekki breytast fyrr en 1. maí,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Í vaktavinnu verður hægt að stytta vaktir allt niður í 32 stundir á viku en það fer meðal annars eftir því hve þær eru flóknar. Viðræður um útfærsluna í vaktavinnu eru enn í gangi og fara fram á hverjum vinnustað. 

„Þetta er búið að vera baráttumál til fjölda ára að fá 80% vaktavinnu viðurkennda sem 100% vinnu og þarna liggja líka fjölmörg tækifæri og líka tækifæri í því að gera vaktavinnuna eftirsóknarverðari og meta hana betur að verðleikum,“ segir Guðbjörg. 

Hægt er að fá upplýsingar um styttingu vinnuvikunnar á meðal annars betrivinnutimi.is

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Starfsmenn í dagvinnu hjá hinu opinbera finnur fyrir styttingunni strax. Þessi mynd er af starfsfólki í borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins árið 2020.