Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Taka vélar Icelandair úr geymslu: „Geysileg áskorun“

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Byrjað er að taka þotur Icelandair úr geymslu og yfirfara þær, nú þegar bólusetning fyrir kórónuveirunni er hafin. Tæknistjóri viðhaldssviðs Icelandair segir að síðustu mánuðir hafi verið mikil áskorun, auk þess sem það fylgi því mikil vinna að taka flugvélar úr langri geymslu.

Stór huti flugvélaflota Icelandair hefur verið í geymslu að undanförnu enda hefur orðið gríðarleg fækkun á flugferðum í faraldrinum. Nú er hins vegar unnið hörðum höndum að því á Keflavíkurflugvelli að „dusta rykið“ af þessum vélum, enda sjá menn nú fyrir endann á þessu ástandi.

„Við skipuleggjum okkur í vikum og mánuðum. Þannig að við erum á vissan hátt farin að horfa fram á vorið. En það eru mörg handtök sem þarf að framkvæma áður en að þeim tíma kemur,“ segir Hörður Már Harðarson, tæknistjóri viðhaldssviðs Icelandair.

Þannig að þið eruð að fá óskir um að vélar séu klárar í vor?

„Já. Þannig er skipulagið og við erum byrjaðir að vinna í því.“

„Ansi snúið“

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við fréttastofu að ferðavilji sé að aukast með jákvæðum fréttum af bóluefni og að félagið finni fyrir miklum áhuga á Íslandi sem áfangastað. Enn sé þó óvissa framundan enda talsverðar ferðatakmarkanir enn í gildi um allan heim. Félagið sé hins vegar við öllu búið og geti bæði aukið eða dregið úr flugi eftir því hvernig hlutirnir þróast.

Tíu af 36 flugvélum Icelandair hafa verið í stöðugri geymslu undanfarna mánuði, auk þess sem fleiri vélar hafa komið og farið úr geymslu. 

„Þetta hefur verið geysileg áskorun, að takast á við þetta, að fást við allar þessar vélar sem hafa þurft að koma í geymslu á jörðu niðri. Á sama tíma höfum við þurft að sinna hefðbundnu viðhaldi og vélum í rekstri þannig að þetta er ansi snúið,“ segir Hörður.

Fylgir því mikil vinna að viðhalda vélum sem standa óhreyfðar?

„Já eftir því sem vélin stendur lengur, því meiri vinnu þarf að framkvæma. Það er vinna sem þarf að framkvæma á þriggja daga fresti, sjö daga fresti, 14, 30, 60, 90 og 180 daga fresti. Þannig að það má segja að það þurfi að vinna við vélina nánast á hverjum degi.“

Hörður segir að þegar vél er tekin úr geymslu fari hún í mjög ítarlega skoðun.

„Það má segja að það taki sjö daga að taka vél úr svona geymslu-prógrammi.“

Og svo þarf að reynslufljúga henni?

„Já það þarf að reynslufljúga öllum þessum flugvélum.“

Hörður segir að síðustu mánuðir hafi verið mikið pússluspil og mikil áskorun, en vonast sé til að í kjölfar bólusetninga færist flugáætlun í eðlilegra horf.

„Ég held að við séum eins og aðrir með mikla bjartsýni í brjósti eftir þessar fregnir,“ segir hann.