Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sturgeon segir Skotland senn snúa aftur í sambandið

epa08420031 Nicola Sturgeon, MSP First Minister of Scotland, during a special coronavirus Covid-19 First Ministers Questions at the Scottish Parliament Holyrood Edinburgh Edinburgh, Scotland, Britain, 13 May 2020.  EPA-EFE/FRASER BREMNER/SCOTTISH DAILY MAIL / POOL
 Mynd: EPA-EFE - SCOTTISH DAILY MAIL / POOL
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands og formaður Skoska þjóðarflokksins segir að stutt sé í að Skotland snúi aftur í Evrópusambandið.

Öll samskipti Skotlands við sambandið byggja nú á samningi þeim sem gerður var á aðfangadag en Sturgeon ítrekaði á gamlárskvöld kröfu flokks síns um sjálfstæði Skotlands.

Evening Standard greinir frá því á vef sínum að ráðherrann hafi birt mynd á Twitter þar sem orðin Evrópa og Skotland eru tengd með hjarta. Mynd sem fyrr hafði verið varpað á byggingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel.

Mike Russell ráðherra stjórnarskrármála í Skotlandi segir að tilhögun mála í samningnum varðandi Norður-Írland og Gíbraltar sýni að sjálfstæði Skotlands sé eina raunhæfa leiðin eftir að aðlögunartímabilinu lauk.

Breska ríkisstjórnin hefði að hans mati átt að gera sérstaka samninga um Skotland einnig en með því að hunsa það hafi skapast þær aðstæður að sjálfstæði sé nú eina leið Skotlands.

Norður-Írland verður áfram hluti af innri markaði Evrópusambandsins og tollareglur sambandsins gilda áfram í höfnum Norður-Írlands.Ekki verður heldur hart landamæraeftirlit milli Írlands og Norður-Írlands.

Gíbraltar verður hluti af Schengen-svæðinu og þar með ytri landamærum Evrópusambandsins.