„Skuldir, þunglyndi, alkóhólismi – Danmörk“

Mynd: RÚV / RÚV

„Skuldir, þunglyndi, alkóhólismi – Danmörk“

02.01.2021 - 10:00

Höfundar

Jónas Sig hélt að flutningar til Danmerkur myndu lækna hann af því hugarvíli sem hrjáði hann en allt kom fyrir ekki. Hann vann þar hjá stærsta hugbúnaðarfyrirtæki heims þegar hann áttaði sig á að hann þyrfti að flytja heim til Íslands og byrja aftur að gera tónlist. Tilhugsunin fannst honum óbærileg en hann fylgdi innsæinu.

Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson varð flestum kunnur þegar hann sló í gegn með hljómsveitinni Sólstrandagæjunum á tíunda áratugnum. Það áttuðu sig ekki allir á því að hljómsveitin átti að vera grín, viðleitni til að hæðast að vinsælum hljómsveitum, en varð óvart sjálf vinsæl hljómsveit. Sólstrandagæjarnir gáfu út þrjár plötur áður en þeir hættu og í þættinum Tónatali segir Jónas frá ferlinum og því þegar hann, eftir mikla innri íhugun, ákvað að snúa aftur í tónlist áratug síðar sem hann sjálfur, sem er enginn sólstrandagæi.

Íslenska svarið við þunglyndi að flytja til Danmerkur

Í millitíðinni flutti Jónas með fjölskyldunni til Danmerkur þar sem honum tókst óvænt að feta beinu brautina sem hann hélt að hann myndi aldrei finna. „Það hafði lengi verið draumurinn að búa í borg eins og Köben og það er líka þetta íslenska element. Ég hef alltaf sagt að íslenska svarið við þunglyndi og alkóhólisma sé að flytja til Danmerkur. Skuldir, þunglyndi, alkóhólismi –Danmörk,“ segir hann glettinn. Allt átti að leysast við flutningana, honum hlyti fljótt að líða betur og nú fengi hann líklega rými til að byrja aftur að gera tónlist. En raunveruleikinn var ekki svo einfaldur. Hann fékk vinnu hjá Microsoft við forritun en tónlistin beið og togaði í hann.

Fór beinu brautina eins og í Röngum manni

„Ég fór bara á beinu brautina eins og ég lýsti í Röngum manni, beinu brautina sem ég hélt ég myndi aldrei komast á.“ Það var kannski ekki hús, bíll og íbúð eins og í laginu en hann var þó í vinnu hjá stærsta tölvufyrirtæki í heimi og lífið var nokkuð stabílt. En tónlistin hætti aldrei að kalla og banka. „Þetta lét mig aldrei vera.“

Heppni að vera þunglyndur og kvíðinn

Einn daginn var sem Jónas fengi hugljómun og vissi hvað hann þyrfti að gera. Hann er ekki viss um að hann hefði komist á þann stað ef hann hefði ekki verið þunglyndur og kvíðinn og að vissu leyti er hann þakklátur fyrir kvillana. „Ég get ekki sagt það öðru vísi, það er erfitt að útskýra það fyrir fólki en ég held það sé mjög gott ef maður á þjáningu. Ég segi oft: Ef þú átt þunglyndi eða kvíða í þér þá er það í raun mikil gleði því yfirleitt nennir maður ekki að gera neitt. Fólk vinnur ekkert í sjálfu sér ef því líður skítsæmilega.“

Vanlíðan hvetji fólk til að leita sálfræðings og kafa inn á við. „Ég komst svolítið á þann stað að ég fór að leita rosalega mikið. Ég leitaði í hugleiðslu, Vísindakirkjuna og alls staðar.“

Hindranirnar liggja í hausnum

Loks fann hann þá sannfæringu að lífið hefði æðri tilgang og að tilgangur hans væri að fara aftur heim til Íslands að gera tónlist. „En ég var ekki tilbúinn í það. Mér leið svolítið eins og lífið væri að kalla á mig að gera eitthvað sem ég gæti ekki gert. Mér fannst það svo óbærileg tilhugsun.“ Eiginkonan stóð með honum og hvatti hann til að fylgja innsæinu. Eina hindrunin samkvæmt Jónasi var hann sjálfur. „Mesta vandamálið hefur verið í hausnum á mér. Þar hafa hindranirnar legið.“

Ekki hyggilegt að vera miðaldra karl í uppreisn

En hann lét slag standa og hefur síðan sent frá sér fjórar plötur. Sú nýjasta nefnist Milda hjartað og hún kom út 2018. Mildi segir hann að sé hluti af þroska hvers manns og lífsferðalaginu. „Ég held það sé heilbrigt að vera uppreisnargjarn unglingur. Ég held maður eigi aldrei að vera óánægður með unglinga sem eru í uppreisn. Uppreisnargjarn miðaldra karl er aðeins flóknara mál,“ segir hann sposkur.

Þegar árin líða sé það gæfa manns að setjast í stólinn hægt og rólega og verða mildur. „Að elska meira hver maður er og hvað maður er að gera, börnin sín og fjölskylduna,“ segir hann. „Fyrir mér er mildi að hætta að hugsa alltaf út frá mér; af hverju segir hann þetta um mig og hverju er heimurinn svona gagnvart mér? Í staðinn fyrir að skilja aðra.“

Matthías Már Magnússon ræðir við Jónas Sig í fyrsta þætti Tónatals, laugardag 2. janúar. Jónas fer yfir ferilinn og flytur lög eftir sjálfan sig og sína helstu áhrifavalda.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Af hverju er ekki nóg bara að vera?“

Tónlist

Að vera kjaftfor en með milt hjarta