Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Nokkrir þingmenn hyggjast ekki staðfesta kjör Bidens

epa05195303 Republican presidential candidate Ted Cruz speaks at the 43rd Annual Conservative Political Action Conference (CPAC) at the Gaylord National Resort & Convention Center in National Harbor, Maryland, USA, 04 March 2016. Republican
 Mynd: EPA
Hópur öldungadeildarþingmanna úr röðum Repúblikana undir forystu Teds Cruz segist ekki ætla að staðfesta kjör Joes Biden á miðvikudaginn í næstu viku.

Auk Cruz undirrita sex sitjandi og fjórir nýkjörnir þingmenn yfirlýsingu þar sem staðhæft er að ásakanir um kosningasvindl hafi meira vægi nú en nokkru sinni á síðari tímum.

Þingmennirnir segjast ætla að fara fram á að sérstök neyðarnefnd verði skipuð sem hafi það hlutverk að endurskoða niðurstöður kosninganna. Nefndin fái tíu daga til að ljúka verki sínu og að því búnu komi þing hvers ríkis saman til þess mögulega að yfirfara kosninganiðurstöðurnar.

Á föstudag vísaði dómstóll í Texas frá kröfu stuðningsmanna Donalds Trump forseta að staðfesta vald Mike Pence varaforseta til að ógilda niðurstöður forsetakosninganna. Lögmenn varaforsetans höfðu farið fram á frávísun málsins, enda hefði hlutverk hans gjörbreyst hefði krafan náð fram að ganga.

Þrátt fyrir að fjöldi þingmanna Repúblikaflokksins hafi lýst yfir stuðningi við þessa hugmynd er búist við að kjör Bidens verði staðfest. Ellefumenningarnir sjálfir telja líklegt að allir þingmenn Demókrata og fjöldi Repúblikana muni staðfesta kjörið.

Mitch McConnell leiðtogi Repúblikana hvetur félaga sína í þinginu til að gera slíkt hið sama. „Niðurstaða kjörmannaráðsins liggur fyrir,“ segir McConnell.