Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mögulegt talið að Løkke stofni nýjan stjórnmálaflokk

02.01.2021 - 01:34
Danmarks statsminister Lars Løkke Rasmussen på Nordiska rådets session i Reykjavik 2010
 Mynd: Wikimedia Commons
Christine Cordsen stjórnmálaskýrandi hjá danska ríkisúvarpinu segir það mjög áhrifamikið þegar fyrrverandi formaður og forsætisráðherra kveður stjórnmálaflokk sinn og ákveður að gerast óháður þingmaður.

Ákvörðun Lars Løkke Rasmussen að yfirgefa Venstre hefur valdið nokkrum titringi nú þegar og flokkurinn stendur frammi fyrir erfiðleikatímum. Cordsen telur að áhyggjur fyrrum flokksfélaga Løkkes snúi helst að því að hann stofni nýjan stjórnmálaflokk.

Þegar kjörtímabili þingmanns utan flokka lýkur séu yfirleitt fáir valkostir í boði, stjórnmálaferlinum gæti þar með verið lokið. Það styðji við þá kenningu að Løkke hyggist efna til nýs flokks að mati Cordsen.

Brotthvarf Lars Løkke segir hún þungbært fyrir flokkinn og ekki síst Jakob Ellemann-Jensen núverandi formann hans. Løkke átaldi hann harðlega í yfirlýsingu sinni í kvöld með ásökunum um stjórnlyndi og að hann gripi til einfaldra lausna

Lars Chr. Lilleholt, fyrrum flokksfélagi og samstarfsmaður Løkkes um áratuga skeið kveðst sorgmæddur yfir ákvörðun hans. Lilleholt var umhverfisráðherra í stjórn Løkkes. Aðspurður um mögulega stofnun nýs flokks kveðst hann ekki sjá Løkke fyrir sér annars staðar en í Venstre.

Løkke er fæddur 1964, lögfræðingur að mennt, og hefur verið meðlimur í Venstre í 40 ár. Hann var formaður ungliðadeildar flokksins og varaformaður flokksins uns hann tók við formennsku af Anders Fogh Rasmussen 2009.

Hann var fyrst kjörinn á þing árið 1994, hefur gengt ýmsum ráðherraembættum og var forsætisráðherra Danmerkur 2009 til 2011 og aftur 2015 til 2019. 

Tilraunir danska ríkisútvarpsins til að ná sambandi við Løkke og Jakob Ellemann-Jensen núverandi formann Venstre hafa reynst árangurslausar í kvöld.