Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Langt og strangt ár með átökum á vinnumarkaði og deilum

02.01.2021 - 13:28
Mynd: CC0 / Pixabay
Árið 2020 litaðist af auknu atvinnuleysi og einnig af hörðum kjaradeilum á atvinnumarkaði. Ungt fólk af erlendum uppruna á erfitt uppdráttar með að komast á atvinnumarkað. Þá er hætt við að farsóttin marki heila kynslóð ungmenna framtíðar. Ekki er víst að öll ferðaþjónustufyrirtæki sem liggja í dvala geti opnað dyr sínar á ný þegar efnahagslífið glæðist á ný.

Þetta kom fram í máli þeirra Höllu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra ASÍ, Júlíusar Viggó Ólafsson, forseti Sambands Íslenskra framhaldskólanema og Davíðs Þorlákssonar, forstöðumanns samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ segir að árið 2020 hafi bæði verið langt og strangt í atvinnumálum. Atvinnuleysi og deilur á vinnumarkaði hafi sett svip sinn á árið. Atvinnuleysið komi mest niður á fólki af erlendum uppruna.

„Við sáum einhverja svakalegustu atlögu að réttindum vinnandi fólks þegar Icelandair gripu til uppsagna í miðri kjaradeilu með stuðningi SA. Þetta eðlilega voru engin smáveigiss átök. Eftir því verður munað. Við erum að sjá að höggið sem útlendingar á vinnumarkaði eru að taka er miklu stærra en hefur verið áður hér á Íslandi og atvinnuþáttaka útlendinga hér á landi er hærra en á öllum hinu Norðurlöndunum,“ segir Halla.

Hún segir að atvinnuleysi ungs fólks af erlendum uppruna sé sérstakt áhyggjuefni og að ekki hafi tekist að vinna bug á atvinnuleysi þessa hóps frá því í bankahruninu 2008. 

Júlíus Viggó Ólafsson, forseti Sambands Íslenskra framhaldskólanema segir að nú sé unnið að könnun meðal nemenda á mismunandi skólastigum um áhrif faraldursins á námsframvinndu þeirra. Það sé ekki tímabært að draga of miklar ályktanir á þessum tímapunkti.

„Það eru virkilegar áhyggjur hjá fólki í ráðgjafahópnum að það sé ekki búið að ná  að tilenka sér námið, grunninn sem það á að vera að byggja sem á að byggja upp nám og atvinnu framtíðarinnar. Ég hef ekki bara áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur á nema andlega, helduir líka að þetta ár hafi áhrif á þessa kynslóð næstu 20, 30 40 árin,“ segir Júlíus Viggó. 

Hætt við að ekki verði hægt að opna allar dyr á ný

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins segir að hætt sé við því að fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustu, sem hafa þegar lokað nái ekki að opna á ný þegar áhrif faraldursins minnka.

„Það er það sem maður óttast að þau störf komi ekki aftur. Það er hægara sagt en gert að koma svona rekstri af stað aftur og þess vegna hefur verið mikilvægt að viðhalda ráðningarsambandinu, að gefa fyrirtækjum kost á að fara í hýði en það er klárt mál að öll fyrirtækin munu ekki opna aftur og þá verðum við að búa svo um hnútuana í skatta og lagamálum þannig að það sé auðvelt að stofna hérna fyrirtæki , að það sé auðvelt að skapa störf. Við megum ekki skattleggja okkur út úr þessarri kreppu eins og þeirri seinustu,“ segir Davíð.

Halla segir næsta ár hafa mikið vægi og segja mikið til um það hver áhrif efnahagslægðarinanr verða. Það skipti höfuðmáli hvernig haldið verði á spilum og til hvaða aðgerða verður gripið.

„Ef við horfum aðeins inn í þetta ár, þar sem eru Alþingiskosningar. Við höfum verið að fá ábendingar frá hagfræðingum og hagsögufræðingum víða um heim sem hafa sagt að það var ekki árið 2008 sem skipti öllu máli í efnahagskreppunni, það var árið 2010, þegar það var ákveðið hvað ætti að gera við skuldirnar. Ég held að næstu kosningar ættu að snúast um þetta því það er næsta ár sem segir til um hvernig við vinnum úr þessarri kreppu,“ segir Halla.

2020 skapaði sundrung

Hún segir að það sé einna verst við árið 2020 að það hafi fært fólk lengra frá hvert öðru. Fólk pirri sig á því þegar samborgarar fara út af sporinu, þó svo að eðlilegt sé að gagnrýnin umræða á sér stað, til að mynda um sóttvarnir.

„Það sem mér fannst verst við þetta ár er þetta mannlega, að við þurfum að óttast hvert annað. Ég tek ekki í hendurnar á ykkur, við föðmum ekki okkar nánustu. Ég vona á sama tíma að við höfum lært af þessu ýmsar smitvarnir, eins og að spritta á okkur hendur áður en við göngum inn í búðir og þvoum okkur um hendur reglulega, að við kveðjum þennan þátt. Ég vil knús árið 2021. Svo er þetta með að við förum að löggast hvert í öðru. Horfa í búðinni á fólk sem er ekki með grímu alveg yfir nefið o.s.frv. Mér finnst þetta ekki kalla fram góða þætti í manneskjunni,“ segir Halla. 

Aðgerðir til að stytta vinnuvikuna á vinnumarkaði tóku gildi um áramótin. Í lífskjarasamningum eru ákvæði þess efnis að vinnutími skuli styttur. Hér á landi er rík hefð fyrir því að fólk vinni mikið. Halla segir það vera tímaskekkju.

„Hugmyndin um 8 stunda vinnudag er aldargömul. Það eru liðin hundrað ár síðan þetta var talin skynsamleg lending. Þetta er eitt af stóru málunum á árinu 2020. Hún er mest hjá hinu opinbera en einnig á almennum markaði. Maður þekkir að í verkalýðshreyfingunni fyrir 10 árum þegar átti að fara að ræða þetta að fólk vildi frekar hærri laun og meiri aukavinnu, en þetta hefur breyst. Það virðist vera meiri  stemming fyrir því að eiga meiri tíma með sinni fjölskyldu og að vinnan sé ekki það eins sem skilgreinir okkur,“ segir Halla.

Davíð segir að vandamálið sé fyrst og fremst felast í því hvernig hægt sé að útfæra vinnustyttinguna. Hvað fólk geri skipti marga miklu máli.

„Hún skiptir mjög margt fólk miklu máli og fyrir sjálfsmynd þess. Ég held að það sé ekki að fara að breytast þó að það sé mikilvægt að horfa til annarra þátta. Ég er sammála því að auka frítímann eins og hægt er, en þar getum við líka skoðað samgöngukerfið okkar til að minnka ferðatímann o.þ.h.. Þó að það séu margir sem eiga erfitt núna þá er það svo að í sögulegu og alþjóðlegu samhengi búum við við mjög góð lífsgæði og við þær aðstæður þá er það meiri frítími sem felur í sér enn meiri lífsgæði. Sumstaðar stendur fólk frammi fyrir valinu, vil ég hærri laun eða vil ég vinna minna því þar helst þetta alfarið í hendur,framleiðnin og viðveran,“ segir Davíð.