Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki fleiri skotárásir í New York síðan árið 2006

epa08913671 New York City Police Commissioner Dermot Shea stands in the middle of an empty Times Square before the New Year's Eve Ball drops in New York, New York, USA, 31 December 2020. Due to the coronavirus pandemic people were not allowed in to celebrate in Times Square.  EPA-EFE/JASON SZENES
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögreglan í öllum fimm umdæmum New York-borgar skráði 1531 skotárás á árinu 2020 sem er rúmlega tvöföldun frá árinu áður þegar þær voru 754. Morðum í borginni fjölgaði mjög á árinu.

Glæpir þar sem skotvopnum er beitt hafa ekki verið jafnmargir í borginni frá árinu 2006 hefur NY Daily News eftir Dermot Shea lögreglustjóra. Í skýrslu lögreglunnar sem birt var á nýársdag kemur einnig fram að 462 morð voru framin í borginni sem er 45% aukning frá árinu 2019.

Nauðgunum fækkaði, sömuleiðis líkamsárásum og ránum en innbrotum og bílþjófnuðum fjölgaði. Shea lögreglustjóri vill kenna aukninguna í ofbeldisglæpum nýjum lögum sem koma í veg fyrir að dómarar geti að vild haldið misyndismönnum á bak við lás og slá.

Það var um miðjan maí sem skotárásum tók að fjölga og eftir að mótmæli vegna andláts Georges Floyd brutust út í borginni varð ástandið mjög alvarlegt. Á þjóðhátíðardaginn 4. júlí urðu 41 fyrir skotárásum og níu féllu í valinn. 

Shea fullyrðir að þegar slíkum mönnum var hleypt út hafi blóðbaðið tekið að stigmagnast, en talsmenn þeirra umbóta sem lögin eru talin standa fyrir draga þá kenningu í efa. Shea heitir því að herða tökin, stöðva framgöngu óaldaflokka og annarra þeirra sem halda íbúum New York í heljargreipum.