Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Arion og Eimskip leiddu miklar hækkanir á árinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hlutabréf í kauphöllinni hækkuðu um 45 prósent á árinu sem er að líða. Arion banki og Eimskip leiddu hækkanir en hlutabréf í þeim nærri tvöfölduðust í verði.

„Miklar hækkanir og stóraukin umsvif fyrst og fremst. Þrátt fyrir það er íslenski hlutabréfamarkaðurinn um helmingi minni heldur en hjá helstu nágrannaþjóðum og þátttaka almennings langtum minni,“ segir Snorri Jakobsson, stofnandi Jakobsson, Capital um þróun hlutabréfamarkaðar á árinu.

Virði Arion og Eimskip tvöfaldast

Að meðaltali hækkuðu hlutabréf á aðalmarkaði kauphallarinnar um rúmlega 45 prósent. Mest hækkuðu hlutabréf í Arion banka, en virði þeirra nærri tvöfaldaðist. Minni afföll en vænst var vegna faraldursins og mikill rekstrarbati á árinu skýra hækkunina að miklu leyti. Hlutabréf í Eimskip hækkuðu um 95 prósent en rekstrarumhverfi í sjóflutningum hefur verið afar hagstætt á árinu.

Síminn, Sýn og Skeljungur hækkuðu öll um 50 prósent eða meira og má rekja þær hækkanir til umfangsmikillar eignasölu.

Nýliðarnir hækkuðu mikið

Tvö ný félög voru skráð á aðalmarkaðinn á árinu. Ríkið seldi hlut í Íslandsbanka og var endanlegt útboðsgengi 79 krónur. Skömmu síðar fór félagið á markað og er verð á hlutnum í dag í kringum 125 krónur. Síldvarvinnslan var einnig skráð á markað og hækkuðu hlutabréf hægt til að byrja með en ruku upp í október þegar tilkynnt var um stóraukinn loðnukvóta. Það sama gerðu hlutabréf í Brimi sem, eins og í Síldarvinnslunni, hækkuðu um rúmlega 50 prósent. 

Bréf í Kviku hækkuðu sömuleiðis mikið, um tæplega 54 prósent en samruni Kviku, TM og Lykils var samþykktur í mars.

Meiri þroska fylgi minni hækkanir

Þau hlutabréf sem hækkuðu minnst á árinu voru Marel og Icelandair, en fjárfestar fengu engu að síður ágæta ávöxtun þar. Marel hækkaði um tæplega ellefu prósent og Icelandair um 12,5 prósent.

Von er á fleiri félögum í kauphöllina á næsta ári og býst Snorri við markaðurinn haldi áfram að vaxa. „Ég held að það verði kannski meiri sveiflur. Markaðurinn er að vaxa og stækka mjög mikið og vonandi mun markaðurinn hækka aðeins minna og þroskast.“

 

Magnús Geir Eyjólfsson