Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Aðstæður flóttafólks í Bosníu algerlega óviðunandi“

epa08914519 Migrants warm themselves by a campfire during a winter day at the Lipa refugee camp outside Bihac, Bosnia and Herzegovina, 01 January 2021. Some thousand refugees at the camp were scheduled to be relocated from the burnt-down tent camp on 31 December, yet were returned to Lipa camp. A fire on 23 December destroyed most of the camp near the city of Bihac, which has already been sharply criticized by international authorities and aid groups as unsuitable for accommodating refugees and migrants.  EPA-EFE/FEHIM DEMIR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Aðstæður flóttafólks í Bosníu-Hersegóvínu eru algerlega óviðunandi að sögn Johanns Sattler sendifulltrúa Evrópusambandsins í landinu. Þann 23. desember síðastliðinn brunnu búðir flóttafólks í Lipa nærri borginni Bihac í norðvesturhluta landsins. Það varð til þess að fjöldi flóttafólks er á vergangi án húsaskjóls.

 „Grundvallarréttindum hundruða fólks er stefnt í hættu,“ segir Sattler og bætir við að flóttafólkið sé hreinlega í lífshættu. Hann átti fund í dag með Selmo Cikotic öryggismálaráðherra Bosníu-Hersegóvinu ásamt sendifulltrúum Austurríkis, Þýskalands og Ítalíu.

Tilgangur fundarins var að finna lausn á vanda flóttafólks í landinu, sem nú telur um 8.500 manns.

Enginn fórst í brunanum á Þorláksmessu en lögregla telur að eldurinn hafi verið kveiktur af ásettu ráði í mótmælaskyni vegna brotthvarfs starfsfólks Alþjóða fólksflutningastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Stofnunin rak búðirnar í Lipa en mat hennar var að þær væru óhæfar sem mannabústaður. Þær voru settar upp í apríl síðastliðnum en hvorki var þar rafmagn að fá né rennandi vatn.

Bosnía er á svokallaðri Balkan-leið en um hana fara tugir þúsunda flóttafólks frá miðausturlöndum, Afríku og Asíu á leið sinni til Vestur-Evrópu.